152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að hafa það í huga að við erum að taka skref númer tvö og við fórum aðra leið í upphafi með almenna útboðinu og frumskráningu bréfanna og mér fannst það hafa tekist vel. Þótt hv. þingmaður hafi lengi gagnrýnt verðið í því útboði og vísi til þess að bréfin hafi mikið hækkað við skráningu og í kjölfarið þá tel ég að það sé ágætlega fram komið að það hafi verið bara í samræmi við það sem gerist í sambærilegum tilvikum. Síðan förum við þessa leið núna til að koma miklu magni út á því sem ég tel vera vel ásættanlegt verð fyrir ríkið. Þetta er gríðarlega mikið magn í íslensku kauphallarsamhengi og þetta gerist allt á einum degi. Nú er ágætt að hafa það í huga að það eru auðvitað til fleiri leiðir til að gera þetta en við hefðum getað reynt að nota markaðinn og segja bara: Við ætlum að mjatla þessu út í gegnum markaðinn og við munum þess vegna bara alltaf taka því verði sem er í boði hverju sinni yfir langan tíma á markaðnum og fela einhverjum að mjatla þessu svona út. Það hefur líka sína ókosti að gera það og getur stöðvað verðþróun í bankanum ef það er vitað að það sé stanslaus og öflug framboðshlið af hálfu ríkisins. Það hefði líka verið hægt að fara aftur í almennt útboð með skráningarlýsingu. Reynslan sýnir að þá lækkar yfirleitt verðið í aðdraganda útboðsins. Margir fara að leika þann leik að létta af sér bréfum og ætla síðan að koma krafti af inn í útboðið. Það er ekki heldur gallalaus leið. En ef maður skoðar heildarniðurstöðuna í þessu tilviki þá finnst mér að markmiðum okkar hafi verið náð. Eftir standa hér spurningar um nákvæma framkvæmd útboðsins, þennan skamma tíma sem útboðsferlið stóð opið og mér finnst bara sjálfsagt að því sé svarað og við fáum betri skýringar frá Bankasýslunni. Ég hef kallað eftir gögnum sem eru enn ókomin. (Forseti hringir.) En það verður enginn skortur á því að ég fleyti þeim áfram um leið og ég get.