152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[20:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hvernig hljómar það, svo skal böl bæta, eða eitthvað svoleiðis? Ég ætla nú bara að segja það um söluna á Arion banka þar sem var, eins og hæstv. ráðherra vitnaði í áðan, hækkun um 18% að þeir sem voru að selja hljóta að hafa lamið sig allhressilega í tærnar eftir á, misstu þarna af dágóðri summu, því að eins og allir sem komu fyrir fjárlaganefnd til að útskýra þetta fyrirkomulag lýstu því þá er eðlileg hækkun eftir svona frumútboð í kringum 5–10%. Það væri ásættanleg niðurstaða fyrir alla. Minna en það er ekki gott fyrir kaupendur hvað þá ef það lækkar. Ef það er hærra fer það að verða sífellt verra fyrir seljendur, augljóslega. Þannig að þeir sem seldu í Arion banka og verðið hækkaði svo um 18% í kjölfarið hljóta að hafa sagt: Við misstum þarna dálítið mikið. Við erum að tala um 19% strax fyrir Íslandsbanka og upp í 60%, næstum því, á næstu mánuðum eftir það. Það er ekki bara óheppilegt. Þetta voru 25–30 milljarðar. Það er miklu, miklu meira en óheppilegt. Þannig að mér finnst áhugavert að þeir sem stóðu að tilboðinu, ráðuneytið, Bankasýslan og fleiri, komi bara og segi, þvert ofan í allt sem allir ættu að sjá að er augljóst, að þetta hafi verið frábær sala. Hún er það ekki, ekki þegar munurinn á verðinu er svona gríðarlega mikill. Það má alveg vera 5–10% hækkun, það er bara fínt, og í seinna útboðinu má alveg vera 5% afsláttur miðað við að það séu (Forseti hringir.) skilyrði fyrir kaupendur. Það er bara fínt. En þegar við erum komin í þessar upphæðir, (Forseti hringir.) 60% hækkun, næstum því, þá er eitthvað að.