Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

upplýsingar um kaupendur Íslandsbanka.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Um margt get ég verið sammála honum þó að ég sé ekki sammála því að við blasi að hér sé um augljósa spillingu að ræða. Vandinn er sá að það ríkir ekki fullt gagnsæi um ferlið og það gengur ekki og þar erum við hv. þingmaður sammála. Nú var bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd kynnt tillaga Bankasýslunnar sem fer með eignarhluta ríkisins í bönkunum. Það var gert á sínum tíma til að tryggja ákveðna armslengd, eins og það heitir, frá hinu pólitíska valdi. Það ferli var kynnt fyrir nefndunum og í sjálfu sér liggur algjörlega fyrir að meiri hluti beggja nefnda mælti með því að hafist yrði handa við að ráðast í framhald á sölu. Í upplýsingum sem Bankasýslan hefur birt koma fram upplýsingar um fjölda og dreifingu fjárfesta, að 190 innlendir og 19 erlendir aðilar hafi tekið þátt og innlendir lífeyrissjóðir hafi verið langstærstir. Er það sömuleiðis mat Bankasýslunnar að sölumeðferðin hafi verið í fullu samræmi við tillögur stofnunarinnar frá 20. janúar og kynningar á þeim.

Mér finnst rétt að ítreka hér að það var Bankasýslan sem mat hverjir væru skilgreindir langtímafjárfestar af því að hv. þingmaður spyr um það. Hins vegar er það algerlega ljóst af minni hálfu að þegar ríkiseign á borð við Íslandsbanka er seld þá á að liggja fyrir hverjir keyptu. Það eru upplýsingar sem íslenskur almenningur á heimtingu á. Ef einhver tæknileg atriði valda því að Bankasýsla ríkisins telur sig ekki geta birt þær upplýsingar tel ég réttast að Alþingi geri viðeigandi breytingar á lagaumhverfi þannig að unnt sé að birta þær því að annað gengur ekki. Þessum sjónarmiðum hef ég komið skýrt á framfæri við stjórn og framkvæmdastjóra Bankasýslu ríkisins, á ráðherranefndarfundi um efnahagsmál, sem haldinn var á föstudag, því það liggur algerlega (Forseti hringir.) fyrir að þegar um er að ræða aðferðafræði á borð við þessa þá mun alltaf vakna tortryggni ef ekki liggur fyrir hverjir keyptu.