Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ummæli innviðaráðherra á búnaðarþingi.

[15:14]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Katrín Jakobsdóttir ber ekki beina ábyrgð á orðum eða gjörðum ráðherra innan sinnar ríkisstjórnar en sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar ber hún ábyrgð á því að vera leiðandi í þeim samfélagsbreytingum sem hún sjálf boðar. Það er hennar að draga línuna í sandinn. Ef hún ætlar að vera kyndilberi jafnréttis út á við hlýtur hún að þurfa að bregðast við á einhvern hátt þegar ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn verður uppvís að framkomu sem brýtur í bága við allt sem hún segist standa fyrir, a.m.k. þegar það hentar henni.

Ég spyr: Hversu alvarlega tekur hæstv. forsætisráðherra það að uppræta mismunun? Þegar í harðbakkann slær, hvar stendur hæstv. forsætisráðherra? Er nóg að biðjast afsökunar á lögbroti? Eru það skilaboðin inn í framtíðina? Ef ráðherra brýtur lög, eða sýnir hegðun sem er á skjön við skilaboð ríkisstjórnarinnar, eru á skjön við þá hegðun sem ríkisstjórnin fer fram á að borgarar landsins sýni, er þá nóg að segja bara: Afsakið, það voru mistök? Nú er ég ekki að segja að það sé ekki gott að biðjast afsökunar. Auðvitað er það gott. En er það nóg?