Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

samvinna barnaverndar og sýslumanna í umgengnismálum.

[15:41]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Sú vinna sem mér er kunnugt um að sé í gangi hjá ríkislögreglustjóra, og byggir á þeirri vinnu sem unnin var í Vestmannaeyjum og verkefni sem þar var sett af stað, er að móta verklag um varanlegan stuðning við börn í viðkvæmri stöðu á landsvísu og þar með talið ólíkar myndir af því, skulum við segja. Ég hef því litið svo á að þar sé verið að skoða m.a. það sem hv. þingmaður kom inn á í sinni seinni fyrirspurn. Ég vil síðan þakka þingmanninum aftur fyrir og tel að það sé mjög mikilvægt að við séum á varðbergi varðandi þessi mál almennt en ítreka þó að allt sem ég hef sagt hér tengist auðvitað ekki og getur ekki tengst einhverjum ákveðnum málum sem verið hafa í umræðunni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og fyrir að halda þessu máli á lofti.