Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

staða barna innan trúfélaga.

516. mál
[15:51]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 1. flutningsmanni þessarar beiðni fyrir að gefa okkur tækifæri til að styðja hana. Ég er einn af meðflutningsmönnum á þessu máli. Fréttaflutningur undanfarinna vikna sýnir, svo ekki verður um deilt, að það er nauðsyn að fara í þá úttekt sem þessi skýrsla boðar. Það er nauðsyn að sjá hvernig ríkið sinnir eftirlitsskyldu sinni gagnvart trúfélögum og sérstaklega þegar kemur að stöðu barna innan þeirra.

Í síðustu viku fékk ég einmitt svar við skyldri skýrslubeiðni, að ég myndi segja, um það hvernig undanþágur frá hjúskaparlögum hafi verið veittar síðustu 20 og eitthvað árin. Þar verð ég að segja, herra forseti, að svörin voru nú ekkert allt of falleg. Ráðuneytið var á einhverjum „autopilot“, einhverri sjálfstýringu gagnvart þeim beiðnum þannig að það nægði að pappírarnir skiluðu sér og þá gerði ráðuneytið ekki athugasemd við það að 17 ára stúlka þyrfti undanþágu til að giftast 31 árs manni. Eini varnaglinn sem ráðuneytið setti á þetta var að vígslumaðurinn ætti að kanna hvort um einhverja nauðung að ræða. Sá vígslumaður gæti verið samsekur í mögulegu þvinguðu hjónabandi. Hér þarf margt að skoða, herra forseti.