Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst í þessu máli eins og sumum öðrum að það eru takmörkuð áhrif sem innleiðingarnar hafa, stundum þannig að það kann að gerast síðar og þá liggja leikreglurnar og svörin fyrir, og stundum á það bara ekki við og mun ekki reyna á það hér. Samt sem áður, þótti þetta kalli á alls konar vinnu, þá er í stóra samhenginu alveg ljóst í mínum huga að það er til mikils að vinna að reglur hér séu algerlega sambærilegar við þær sem eru á EES-svæðinu. Þetta eru þau atriði sem hv. þingmaður nefnir og er sjálfsagt að fara yfir þau í utanríkismálanefnd og sömuleiðis samhliða meðferð innleiðingar frumvarps. Þau markmið um að bakgrunnur stjórnenda banka sé fjölbreyttur er bara af hinu góða, sem skýrist svo sem af fleiru en kynhlutleysi. En það liggur líka alveg fyrir að fjármálakerfið á Íslandi er svona almennt, þegar kemur að stjórnum og öðru slíku, ekki fjölbreyttasta svið samfélagsins. En hvort það kallar á einhverjar ráðstafanir við að innleiða þetta er nokkuð sem hægt er að fara yfir í utanríkismálanefnd. En það er ekki verið að gera kröfu um kynjakvóta, svo dæmi sé tekið, með þessari innleiðingu.