Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningu um lífeyrissjóði. Þeir eru í raun stór eignarhaldsfélög. Munurinn er bara sá að arðurinn fer í að borga okkur lífeyri. Ég tel gagnsæi á sviði lífeyrissjóða vera mjög ábótavant og hafandi búið erlendis og borgað í lífeyrissjóði þar, hvernig það virkar — þar þurfa lífeyrissjóðir og allir sjóðir sem þú getur fjárfest í að gefa upp nákvæmlega hvað allur kostnaður er, hvers konar prósenta er tekin þegar þú kaupir þig inn, þegar þú selur, ef þú skiptir frá einni fjárfestingu yfir í aðra, allt þetta er svart á hvítu sem hjálpar þér að velja í hverju þú vilt fjárfesta. Þetta er algjörlega svart box hér á Íslandi.

Annað er mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að lífeyrissjóðunum. Á meðan gjaldeyrishöftin voru í gangi þá gátu þeir eiginlega bara fjárfest hér á Íslandi. Það gerði að verkum að lífeyrissjóðirnir eru eigendur út um allt í hagkerfinu á Íslandi. Það er mjög sérstakt og nokkuð sem er mjög erfitt að vinda ofan af. Við heyrðum hæstv. fjármálaráðherra tala um það í síðustu viku hve erfitt það væri að komast til baka yfir í það að leyfa þeim að eiga dreifðara eignasafn. Við sjáum voðalega lítið hvað er að gerast þarna inni, í hverju þeir eru að fjárfesta. Af hverju? Hver er fjárfestingarstefnan þeirra? Allt þetta er ákveðið af örfáum aðilum í framkvæmdastjórn þessara lífeyrissjóða og það er allt of lítið gagnsæi að mínu mati.