Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa framsögu. Ég tel mikilvægt að þessi tilskipunin nái fram að ganga og að við ræðum þetta í þinginu. Hitt er annað að þetta snertir í rauninni grunninn að fjármálaþjónustu eða einn lið af fjármálaþjónustu. Þá velti ég þessu fyrir mér í tengslum við bankasöluna núna á Íslandsbanka sem við í Viðreisn höfum stutt í ljósi þess að við teljum að eignarhald á bankamarkaði skiptir máli. Við viljum að ríkið sé áfram kjölfestufjárfestir í a.m.k. einum banka og við sjáum fyrir okkur Landsbankann. En eignarhaldið eitt og sér skiptir ekki mestu máli þegar kemur að samkeppni á fjármálamarkaði. Samkeppni fyrir neytendur á fjármálamarkaði er gríðarlega mikilvæg og við sjáum að þrátt fyrir þessa þrjá banka, þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir séu komnir inn, og kannski líka af því að lífeyrissjóðirnir eru komnir inn, er samkeppni á bankamarkaði og fjármálamarkaði, vátryggingastarfsemi líka, ekki beint að aukast þessi dægrin, þrátt fyrir breytingu á eignarhaldi. Í rauninni er eignarhald ríkisins að færast yfir í að stórum hluta félagslegt eignarhald lífeyrissjóðanna, sem er gott og við treystum sem betur fer lífeyrissjóðunum til að fara með þessar mikilvægu eignir. En samkeppni á fjármálamarkaði er engu að síður ekki endilega grasserandi, það væri náttúrlega æskilegt að hún væri alltumlykjandi. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að taka sjálfstæðar ákvarðanir þrátt fyrir mikilvægar tilskipanir og gerðir frá Evrópusambandinu, hvernig við sjálf getum aukið undir og ýtt á samkeppni hér heima, innan okkar fjármálamarkaðar, á þennan samkeppnisþátt, því að ef við aukum samkeppni á fjármálamarkaði mun það vera til hagsbóta fyrir neytendur.