Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Forseti. Við erum algerlega sammála um breytt eignarhald á bönkunum og að við færum frekar eignarhald á bönkunum frá ríkisvaldinu yfir á almenna markaðinn. Það er af hinu góða og við styðjum þetta í Viðreisn svo lengi sem við höldum a.m.k. einni kjölfestufjárfestingu í einum banka. Skrefin sem er verið að stíga eru rétt, þó að það megi alltaf ítreka það sem við höfum sagt og það má að einhverju leyti efast um það sem nú er verið að gera. Það verður bara farið yfir það og lögum breytt, eins og forsætisráðherra kom inn á áðan. Ef það er einhver fyrirstaða gagnvart því að veita upplýsingar, auka gegnsæi í ferlinu, þá verður þingið að koma að því og laga það, ef það þarf einhverjar heimildir til að ýta undir gegnsæið. Það er algjört lykilatriði til þess að byggja upp traust á starfsemi sem þarf á því að halda, að almenningur fari með í þá mikilvægu vegferð að dreifa eignarhaldinu á bönkunum. En það breytir ekki því að þessi bankasala er ekki eitthvert risaskref í því að koma eignarhaldinu á bönkunum frá ríkinu yfir í almenna einkafjárfestingu því að við erum að mestu leyti að fela þetta lífeyrissjóðunum, sem við treystum sem betur fer vel til að fara með þetta. En mun samkeppnin aukast verulega mikið við þetta? Hún mun aukast, ég er sammála ráðherranum um það. En mun hún aukast það mikið að við sjáum enn frekari valkosti fyrir neytendur sem taka hér lán, hvort sem það eru húsnæðislán eða önnur lán, lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki eða einstaklingar og fjölskyldur? Nei, það er ekkert endilega að fara að gerast. Við sjáum að Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á að það vantar aukna samkeppni í fjármálaþjónustunni hér heima. Þá erum við komin að því sem við leysum ekki hér í andsvörum, ég og hæstv. ráðherra, en stóri fíllinn í þessari postulínsbúð er auðvitað gjaldmiðillinn. Við fáum ekki erlenda fjárfestingaraðila hingað, erlendan banka, (Forseti hringir.) nema við skiptum um gjaldmiðil. Þetta hefur m.a. bankastjóri Deutsche Bank sagt þegar bankar hafa verið seldir hér. Gjaldmiðillinn er stóra hindrunin (Forseti hringir.) og á meðan þurfa neytendur að borga brúsann.