Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:20]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég stóðst ekki mátið fyrst hv. þingmaður nefndi mig í ræðu sinni, reyndar út af orðum sem féllu hér tveimur málum fyrr í dag, en þetta tengist náttúrlega því að mér finnst skipta máli að íslensk stjórnvöld og löggjafarvaldið séu aðeins meira á tánum þegar kemur að innleiðingu á Evrópureglum. Hér erum við ekki með elstu reglurnar í safninu í höndunum, hér er um að ræða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2019. En vegna þess að reglur um fjármálakerfið eru ekkert bara fyrir fjármálakerfið heldur fyrir samfélagið þá skiptir máli að Evrópusambandið er í millitíðinni búið að samþykkja grænan samfélagssáttmála. Það er búið að samþykkja að meginþungi fjárfestinga næstu árin og áratugina eigi ekki bara að vera í þágu einmitt þessara smáu og meðalstóru fyrirtækja, vegna þess að það er skilvirkasta leiðin til að koma atvinnulífinu sem hraðast af stað, heldur líka í þágu grænna umskipta, ekki bara vegna þess að þar er hægt að finna nýsköpunina og vaxtarsprotana á næstu árum heldur vegna þess að við þurfum það bara sem samfélag. Þess vegna velti ég fyrir mér: Hvernig getum við náð utan um þetta? Hvernig væri t.d. hægt að fjalla um þessa gerð sem snýr að því hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki geta náð sér í fjármagn á markaði? Gætum við ekki nýtt ferðina og kannski reynt að innleiða eitthvað varðandi græna fjárfestingu í sömu ferð þannig að við séum ekki að hlaupa þau skref þegar sú gerð kemur loksins eftir pípunum til okkar? Tökum aðeins af skarið varðandi eitthvað sem kemur (Forseti hringir.) hvort eð er til okkar og er eitthvað sem við viljum hvort eð er gera.