Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir sitt innlegg í þessa umræðu. Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart að sú umræða og athugasemdir hans hafi beinst að akkúrat því hvernig við gætum haft meiri aðkomu að þeim reglum sem við erum að taka upp frá Evrópusambandinu. Ég get tekið undir margt af því sem þingmaðurinn sagði varðandi það. Það er ýmislegt mjög gott og gagnlegt sem til okkar hefur komið frá Evrópusambandinu. Ég var lengi að vinna í ráðuneyti sjálf og þá var það oftast þannig að manni fannst að þar væri ákveðin vinna sem færi fram við undirbúning löggjafar sem við höfum hreinlega ekki tök á að vinna hér á okkar litla landi með okkar litlu stjórnsýslu.

Það sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í er um það sem hann nefndi með það hvað við erum smá, hvað við erum í rauninni lítil og þar af leiðandi lítils megnug í þessu stóra samhengi þegar við erum að taka upp reglur frá miklu stærra batteríi. Þingmaðurinn talar um að við stæðum betur ef við sætum á fundum þar inni og gætum tekið virkari þátt. Mig langar þá til að spyrja þingmanninn hvort hann telji að það myndi raunverulega breyta einhverju að því er varðar aðkomu að þessum reglum og mótun þessara reglna að við sætum við borðið miðað við það hversu fá sæti við myndum fá í rauninni við þetta ógnarstóra borð.