Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 215/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

462. mál
[17:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér EES-reglugerð um vaxtarmarkað lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Einhvern veginn vorum við komin út í varnarbandalög og landbúnað norðarlega. Ég veit ekki alveg hvernig það tengdist, en mig langar að fjalla aðeins um hvað þetta felur í sér.

Þegar lítil eða meðalstór fyrirtæki vilja sækja sér fjármagn, hvort sem það er til nýsköpunar, til að hefja starfsemi eða kannski víkka út markaði eða annað, þá er mjög flókið að skrá sig á hlutabréfamarkað. Við sjáum það kannski einna helst á því að á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum hér á Íslandi eru 20 fyrirtæki, en voru lengi vel ekki nema 10 eða 12. Ástæðan er einföld: Það er mjög flókið að skrá sig á markað. Það eru margar reglur sem þarf að fara eftir og það er meira ætlað fyrir fyrirtæki sem eru lengra komin í sínum líftíma. Við sjáum það t.d. að íslensku bankarnir hafa verið á mismunandi tímum skráðir á þennan markað, Icelandair, Eimskip og fleiri, hvort sem þeim gekk svo vel á markaðnum eða ekki. En ef um er að ræða lítið eða meðalstórt fyrirtæki, sér í lagi ef það er líka nýtt fyrirtæki, þá eru mismunandi leiðir til að ná í fjármagn. Stundum fara þessi fyrirtæki út í það að tala við sérstaka áhættufjárfesta, sem á ensku kallast „venture capitalists“, til að ná í fjármagn. En það form á ekki endilega við um alla og markmiðið með þessari reglugerð er að einfalda það fyrir fyrirtæki að skrá sig á slíkan markað. Hér er verið að einfalda hluti eins og öll þau form og allar þær reglur sem þarf að fylgja, en á sama tíma er þess er gætt að það sé hægt að fjárfesta í þessum fyrirtækjum á gagnsæjan hátt.

Við höfum eitt dæmi um svona markað sem sumir Íslendingar kannast kannski við. Það er svokallaður First North-markaður sem Nasdaq rekur. Á honum eru heilmörg fyrirtæki frá hinum Norðurlöndunum og sex íslensk fyrirtæki. Bara til að gefa fólki hugmynd eru þetta fyrirtæki eins og Hampiðjan, sem er svo sannarlega ekki nýtt fyrirtæki, hefur gamla og góða sögu. Þarna er Kaldalón sem, ef ég þekki rétt, er fasteignafélag, Klappir – grænar lausnir, Play, Sláturfélags Suðurlands og leikjafyrirtækið Solid Clouds.

Mig langar að gefa innsýn inn í hvað fyrirtæki þarf að uppfylla til þess að geta komist á markað. Það þarf að vinna með viðurkenndum ráðgjafa sem hefur sérhæft sig í því að skrá fyrirtæki. Það þarf að vera þannig fyrirtæki að það dragi ekki úr trausti á markaðnum. Hvað þýðir það? Þetta þurfa að vera fyrirtæki sem eru ekki einhvers konar spilaborgir sem hrynja hratt heldur þurfa að vera alvöru fyrirtæki. Það þarf að vera einhvers konar verðmyndun. Það þarf að vera nægjanlegur seljanleiki, nægilegt framboð og nægileg eftirspurn eftir hlutabréfum og innan þess er sett upp hversu stór hluti af eignarhaldi félagsins er verið að bjóða á markaðnum. Þetta þarf að vera hlutafélag eða samlagshlutafélag. Með öðrum orðum er ekki hægt að taka einkahlutafélag og skrá það á markað, það þarft fyrst að vera hlutafélag og síðan þurfa að sjálfsögðu hlutabréfin að vera rafrænt skráð og ýmislegt annað hvað þetta varðar. Svo þarf fyrirtækið að vera með einhverja rekstrarsögu eða skýr markmið um hvert skal heitið.

Það að fá þessar reglur í gegnum þessa reglugerð er því mikilvægt vegna þess að ef við viljum búa vel um nýsköpunarumhverfið á Íslandi — sem ég veit að hæstv. utanríkisráðherra hefur enn þá sterkar taugar til eftir að hafa verið nýsköpunarráðherra — þá er mikilvægt að regluverkið í kringum þessa vaxtarmarkaði og þau markaðstorg sem þarna eru séu þannig að fjárfestar og almenningur sem vill kaupa á markaði geti treyst því að þeim sé tryggt aðgengi og innsýn inn í hvað það er að fjárfesta í og gera það á þann máta að heilleiki, eins og það er kallað, á ensku „integrity“, markaðarins sé vel við haldið.

Ég tel þessa reglugerð vera af hinu góða og það er von mín að með auknu og betra regluverki í kringum þetta, með því að draga úr kostnaðinum fyrir þau fyrirtæki sem vilja skrá sig á þennan markað og með því að tryggja aukið gagnsæi og annað munum við sjá fleiri nýsköpunarfyrirtæki skrá sig á slíka markaði og velja þetta sem leið til þess að ná í fjármagn. Þeir fjárfesta til þess að gera nýja frábæra hluti fyrir Ísland og íslenskt samfélag.