Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:05]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 650, 451. mál, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og fleira vegna veiða á bláuggatúnfiski. Ísland hefur tryggt sér umtalsverðar veiðiheimildir af bláuggatúnfiski á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins, en undanfarin ár hafa íslensk skip þó ekki stundað þessar veiðar þannig að íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki góðs af veiðiheimildunum. Ef heimildirnar verða ekki nýttar má ætla að örðugt verði að halda þeim til langframa og þannig verði Ísland af þeim verðmætum. Bláuggatúnfiskur er verðmæt tegund sem seld er á mörkuðum í Asíu fyrir ágætt verð. Af þeim sökum hefur ráðuneytið verið með til skoðunar valkosti um hvernig túnfiskveiðar geti hafist að nýju og orðið hluti af íslenskum sjávarútvegi til framtíðar með fullnýtingu hlutdeildar Íslands. Ráðuneytið hefur í samráði við helstu hagsmunaaðila unnið að frumvarpi til breytinga á lögum svo hægt verði að viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands í veiðunum til framtíðar og tryggja þá þjálfun og þekkingu á veiðunum sem til þarf. Samkvæmt íslenskum lögum kemur til greina að veita leyfi til veiða í atvinnuskyni til skipa sem eru skráð á Íslandi og veiðar og vinnsla skal vera af hálfu íslenskra aðila eins og nánar greinir í 5. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, sbr. 1. gr. laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998. Um er að ræða veiðar sem þurfa sérútbúin skip en slík skip ásamt útbúnaði eru ekki til staðar á Íslandi sem stendur. Til að stuðla að því að veiðar hefjist að nýju af Íslands hálfu er talið nauðsynlegt að veita tímabundnar heimildir í lögum til að heimila íslenskum aðilum að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiða á bláuggatúnfiski til að viðhalda veiðireynslu Íslands, kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á slíkum veiðum.

Þau lög sem frumvarpið leggur til breytingar á eru lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998, lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997, og lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Mikilvægt er að taka fram að umrædd ákvæði til bráðabirgða verða tímabundin til sex ára og eru lögð fram sem undantekningartilvik frá þeirri grundvallarreglu í íslenskum sjávarútvegi að veiðar með íslenskum veiðiheimildum fari fram með íslenskum skipum og áhöfn. Viðbúið er að ef veiðar ganga eftir sjái aðilar sér hag í að tryggja að skip með útbúnaði til veiðanna verði skráð á Íslandi eftir sex ára tilraunatímabil. Mikilvægt er að nefndin taki þessi bráðabirgðaákvæði til skoðunar, bæði hvað varðar gildistíma og fleiri þætti.

Helstu hagsmunaaðilar varðandi efni frumvarpsins eru Sjómannasamband Íslands, Félagi skipstjórnarmanna, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Forsamráð fór fram í maí og júní árið 2021 með þessum aðilum. Einnig hefur samráð verið haft við önnur ráðuneyti sem málið varðar. Áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar síðastliðnum. Engar umsagnir bárust. Drög að frumvarpi þessu voru svo birt í samráðsgáttinni í lok janúar og fram í febrúar og engar umsagnir bárust. Ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum hins opinbera ef frumvarpið verður samþykkt. Ef verður af veiðum á bláuggatúnfiski gæti það skilað tekjum í ríkissjóð í formi skatta og leyfis- og þjónustugjalda síðar meir. Áhrif á stjórnsýslu eru óveruleg og hún í stakk búin til að taka við þeim verkefnum sem frumvarpið mælir fyrir um.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda er jákvæð í þessu samhengi. Þá undirstrika ég mikilvægi þess að viðhalda veiðireynslu og hlutdeild Íslands hjá Atlantshafs-túnfiskveiðiráðinu. Þannig getum við byggt upp innlenda þekkingu og reynslu til þessara veiða, kannað hagkvæmni þeirra, skapað tekjur, störf og þjónustu í kringum atvinnugreina.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni frumvarpsins og vil að öðru leyti vísa til þeirrar greinargerðar sem fylgir því en þar er ítarlega fjallað um efni þess.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.