Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ja, það er nú einu sinni þannig að Japanir senda skip alla leið að ströndum Íslands, að landhelgi Íslands, til að veiða þessa fiska. Þannig að ef það er hægt að gera út skip sem siglir yfir hálfan hnöttinn til þess að veiða þessa fiska og fá fyrir það ágætispening þá hlýtur það að þýða að ef við siglum einungis 100 sjómílur eða 150 sjómílur þá hljótum við að geta gert það á arðbæran hátt. Það spilar náttúrlega inn í hversu mikið magn hver bátur getur veitt, hvort hægt sé að gera þetta á arðbæran hátt eða ekki. Það fer náttúrlega eftir því hvar fiskurinn er og hvar enn er til nóg af fiski. Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér þá var mikið um þennan fisk t.d. við austurströnd Bandaríkjanna, en hann var ofveiddur þar og þar af leiðandi minnkaði stofninn og þá var það ekki eins arðbært. Þessir fiskar hér í Atlantshafinu eru stærri en fiskarnir sem verið er að veiða í Suðurhöfum og í Kyrrahafinu, sem gerir það að verkum að þetta er verðmætari fiskur, sem þýðir að það er hægt að ná fiskinum með arðbærari hætti. Hvort við getum fengið skip og fólk með þekkingu hingað — já, ég held að það sé hægt að fá slíkt á ágætu verði til þess að gera þetta arðbært. En það fyrsta sem við þurfum að læra er auðvitað hvernig við veiðum, hvernig við meðhöndlum hráefnið og hvernig við tryggjum að verðið sem fæst fyrir afurðirnar sé sem hæst. Verðbilið er ekki bara 400 dollarar, eins og ég nefndi, heldur getur verðið verið mun hærra fyrir góðan fisk.