Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir bæði ræðuna og andsvör við annan hv. þingmann hér, Loga Einarsson. Það kom ýmislegt fram í því samtali sem ég hafði hugsað mér að spyrja um. Eitt situr svolítið eftir sem hv. þingmaður talar um og það er válistinn, að bláuggatúnfiskurinn sé kominn á válista vegna rányrkju sem m.a. og ekki síst á sér stað rétt utan við fiskveiðilögsögu okkar. Er kannski hægt að snúa þessu svolítið við, af því að hv. þingmaður viðraði áhyggjur af því hvað gerðist ef við færum að veiða? Segjum að Íslendingar með sína sögu um ábyrga veiði og ábyrga veiðistjórnun færu sýna þessari tegund athygli og veiða í samræmi við úthlutaðan kvóta samkvæmt stífustu reglum; gæti það mögulega haft jákvæð áhrif á framtíð þessa fiskstofns, vegna þess að ég veit það af reynslu að slíkum veiðum myndu fylgja rannsóknir og annað slíkt, við myndum leggja okkar af mörkum? Skynsamleg veiði byggð á vísindalegum rökum myndi líka þýða að öllum líkindum að við myndum gæta betur að framferði hinna svokölluðu sjóræningjaveiðiskipa rétt við landhelgi okkar. Er þetta ekki eitthvað sem við sem ábyrg fiskveiðiþjóð ættum að gera? Þetta segi ég og er um leið mjög spennt fyrir því að fá hér íslenskan túnfisk á land.