Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

stjórn fiskveiða o.fl.

451. mál
[20:48]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir mun fara til umfjöllunar í hv. atvinnuveganefnd og mig langaði af því tilefni aðeins að nefna nokkur atriði og kannski ítreka það sem kom fram í andsvörum fyrr í þessari umræðu og varðar þau verðmæti sem við erum hér að ræða um. 180 tonn á ári, sagði hæstv. ráðherra að þetta heildaraflamark næmi, sem hljómar kannski ekki eins og mikið magn. En eins og kom fram í ræðu hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar er kílóið inni í þessum tonnum með því dýrara sem sést á fiskmarkaði þannig að við erum að tala um gífurleg verðmæti. Það er auðvitað gott í sjálfu sér og gott að heyra ráðherrann fullyrða hér að um sjálfbærar veiðar verði að ræða þó svo að það liggi fyrir, eins og fram hefur komið, að bláuggatúnfiskurinn sé kominn á válista, sem gefur til kynna að það þarf að fara mjög varlega í veiðarnar og huga að því að ofveiða ekki.

Mig langar í fyrsta lagi að nefna það mikilvæga atriði sem ég geri mér vonir um að fjallað verði um í hv. atvinnuveganefnd og það er að skylda okkar til hafrannsókna verði alveg skýr við afgreiðslu þessa frumvarps. Að það sé ljóst að Hafró hafi hér hlutverki að gegna og verði farið í þessa veiði sé algjörlega ljóst að við öxlum okkar ábyrgð á því að rannsaka tegundina, áhrif veiðanna og reynum þá líka í samstarfi við aðrar þjóðir sem eiga hlutdeild í þessum stofnum að efna til vísindasamstarfs ef það er möguleiki. Ég læt vísindamennina um það.

Ég held hins vegar að það sé ekki hægt annað en að ítreka hér að við verðum að sinna hafrannsóknum mjög vel, sérstaklega þegar er verið í rauninni að gera prófun á því hvort þetta geti borgað sig, hvort við fáum þá veiðireynslu sem menn gera sér greinilega vonir um, væntanlega í matvælaráðuneytinu og einnig meðal hagsmunaaðila, því að annars væri ekki verið að flytja þetta frumvarp hér í kvöld. Það væri ekki verið að mæla fyrir þessu frumvarpi. Það hefur ekki verið veitt af okkar hálfu í sex ár og það er ástæða fyrir því. Það virðist vera mat ráðuneytisins að við þurfum að leggja út í þessa ferð og gera íslenskum útgerðarfyrirtækjum kleift að leigja skipin sem þarf að leigja til að hægt sé að veiða bláuggatúnfiskinn, afla sér þekkingar. Ég skil það þannig að við séum að leigja skip með manni og mús, eins og þar stendur. Það þurfi einnig að kaupa erlenda þekkingu skipverja sem kunna að veiða bláuggatúnfisk og það sé ekki þekking sem liggi á lausu meðal sjómanna hér á landi. Þetta er því mikið fyrirtæki.

Þá kem ég að því sem ég nefndi í andsvari við hæstv. ráðherra, að það að fá aflaheimildir afhentar er svo langt frá því að vera sjálfsagt mál, að þær séu afhentar gjaldfrjálsar til þeirra sem nýta stofnana, nýta sameiginlegar auðlindir okkar. Ég geri mér grein fyrir því að hér er verið að afla veiðireynslu en þá vil ég, eins og áður hefur verið gert í þessari umræðu, minna á hvernig eignarhaldið í íslenska kvótakerfinu varð til. Það varð til á grundvelli veiðireynslu, veiðireynslu skipstjóra, veiðireynslu fyrirtækja, og voru tekin síðustu þrjú ár ef ég man rétt. Við vitum og reynslan segir okkur að það býr ekki endilega til sanngjarna útdeilingu verðmætanna. Það hlýtur að vera þannig að þetta mál hafi verið hugsað í ráðuneytinu og að þar sé lagt á það kalt mat hvaða verðmæti séu hér á ferðinni og hvað hóflegt veiðigjald sé svo hægt sé að gera út skipin og fá ekki bara upp í kostnað heldur vonandi einnig einhverjar tekjur af því, þó þannig, varðandi hlutdeild þjóðarinnar í auðlindinni, að það liggi algerlega fyrir að þetta sé nýting sem eigi ekki að afhenda án þess að gjald komi fyrir. Það er ástæða þess að ég kem hér upp, til að ítreka þennan mjög svo mikilvæga punkt, vegna þess að við erum enn að ræða í hvert einasta skipti sem sjávarútveg ber á góma í þessum sal sjálfbærar veiðar, sanngjarnan arð af nýtingu auðlindarinnar til þjóðarinnar. Við megum ekki gera eins og gert var hér fyrir nokkrum árum þegar makríllinn var beinlínis afhentur gjaldfrjáls. Það má bara ekki gerast, hæstv. forseti, að enn og aftur verði farin sú leið að afhenda slík verðmæti á silfurfati til fárra útvalinna.

Gegn því berjumst við í Samfylkingunni og höfum alltaf gert og munum halda áfram að gera. Því kem ég hér upp til þess að ítreka þá aðstöðu afstöðu Samfylkingarinnar og okkar jafnaðarmanna, þannig að hún liggi fyrir við 1. umr. um þetta frumvarp og hæstv. ráðherra heyri það og það sé fært til bókar á þessum þingfundi. Að öðru leyti munum við skoða með opnum huga að afla okkur veiðireynslu með því að reyna að nýta þá hlutdeild sem við eigum í þessum tiltekna stofni bláuggatúnfisks. Hafi ég skilið umræðuna rétt eru þetta nokkrir stofnar, þeim mun meiri ástæða til að rannsaka nákvæmlega hvernig veiði fer með þá tilteknu stofna eða stofninn sem á að veiða úr. Ég geri hreinlega ráð fyrir því að hv. atvinnuveganefnd búið þannig um hnútana að hafrannsóknarskylda okkar verði uppfyllt, að aflaheimildir verði ekki ókeypis og að það sé búið um þetta mál þannig að sómi sé að.