Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

matvæli og eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

475. mál
[21:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að koma hér upp við 1. umr. þessa frumvarps og fagna því alveg sérstaklega að það sé komið fram. Ég ætla að leyfa mér að vitna í greinargerðina, með leyfi forseta:

„Lífræn framleiðsla lýtur strangari kröfum og framleiðsluskilyrðum en hefðbundin framleiðsla matvæla. Lífræn ræktun byggist á frjósömum jarðvegi, lífrænum áburði, náttúrulegum vörnum og banni við erfðatækni. Ríkar kröfur eru jafnframt gerðar varðandi búfé eins og til að mynda um aðbúnað, rými dýra í húsum og kost þeirra á útiveru, jafnframt skal fóður vera lífrænt. Óheimilt er að nota hormón og önnur vaxtarhvetjandi efni og notkun sýklalyfja er takmörkuð. Vottun lífrænnar framleiðslu er trygging fyrir bæði framleiðendur og neytendur um að þær ríku kröfur sem gerðar eru séu uppfylltar.“

Lífræn framleiðsla á að stuðla að ábyrgri notkun orku og náttúruauðlinda, aukinni dýravelferð og að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.

Hér er saman komið mál sem varðar hag umhverfisins, jarðarinnar, neytenda, matvælaframleiðslu og loftslagsins. Allt er þetta hér saman komið og ég verð að nota þetta tækifæri — kannski aðallega í ljósi þess að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var hér í þessum ræðustól fyrir ekki svo löngu að býsnast yfir vilja okkar jafnaðarmanna til að endurvekja aðildarumsókn að Evrópusambandinu og fá hér lýðræðislega umræðu um kosti þess sem fullvalda ríki að gerast aðildarríki Evrópusambandsins. Ég skildi orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þá þannig að það skipti mjög litlu máli, það væri lítið þar að fá og við hefðum getað gert þetta allt saman sjálf. Við vitum auðvitað að það er eins og hvert annað þvaður. Í rúmlega aldarfjórðung hefur hver lagabótin á fætur annarri verið innleidd í íslenska löggjöf í gegnum EES-samninginn, með aðild okkar að þeim mikla og góða samningi. Hér erum við að ræða um lífræna ræktun matvæla, grundvallarmál í öllu samhengi. Það er innleitt í samræmi við gerðir Evrópusambandsins og uppfært í samræmi við þær. Auðvitað hefðum við, hæstv. forseti, getað gert þetta allt sjálf, eða hvað?

Að síðustu: Þetta mál varðar ekki síst neytendavernd, að neytendur geti gengið að því vísu að vottun lífrænnar framleiðslu standist og að hún sé alvöru, að það séu ekki bara límmiðar, ef ég má taka þannig til orða, hæstv. forseti, heldur sé ljóst að vottunin sé fagleg, lögleg og samkvæmt þeim stöðlum sem við viðurkennum og lönd sem við erum í viðskiptum við viðurkenna líka. Það er mjög mikilvægt því að það er sem betur fer þannig að margir neytendur, alla vega þau okkar sem erum aflögufær, vilja greiða meira fyrir vottaða lífræna framleiðslu og þá getum við gert það og við göngum að því vísu að það sem við erum að kaupa séu góð matvæli.

Þetta skiptir máli og þetta er mikið framfaraskref og ég veit að málið verður rætt ítarlega í hv. atvinnuveganefnd. Ég er þeirrar skoðunar að hér sé um mikið framfaramál að ræða og mun gera mitt til að sjá til þess að það fái afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi en vil líka nota tækifærið og ítreka það hversu lánsöm við erum að hafa gert EES-samninginn og að geta nýtt okkur það sem þaðan kemur til að gera umbætur í þágu umhverfis, í þágu loftslags, í þágu náttúruverndar og í þágu neytendaverndar.