152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:31]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu. Hún minntist á stöðu sveitarfélaganna af þessu tilefni og ég held að flest okkar geti tekið undir það að staða þeirra sé tvísýn, svo ekki sé fastar kveðið að orði. Það er endalaus bardagi milli ríkis og sveitarfélaga um það hvað hvert stjórnsýslustig eigi að borga og síðan hvernig sveitarfélögin fái aflað tekna til að sinna þeirri þjónustu sem þeim er uppálagt að gera samkvæmt lögum. Það liggur fyrir um málefni fatlaðs fólks að sá málaflokkur er í tómu tjóni, verður maður að segja. Sveitarfélögin hafa lýst því yfir að þau eru komin í undirballans með þennan málaflokk upp á 9 milljarða. Við hefðum auðvitað viljað sjá þess stað að það væri með einhverjum hætti reynt að leiðrétta þetta af því að þessi málaflokkur er bara að verða erfiðari og erfiðari, þjónustuþörfin eykst og eykst með því að við hugsum bara orðið öðruvísi um okkar fólk. Við sendum það ekki bara á hæli einhvers staðar eins og var gert í gamla daga og lokum það inni. Við erum að sinna þessu fólki eins og manneskjum í dag og það þýðir að það kostar meiri pening. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sjái þess einhvers staðar stað í þessari fjármálaáætlun að það eigi að reyna að koma til móts við sveitarfélögin.