152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir spurninguna. Einfalda svarið við þessu er nei. Það er ekkert rætt um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þessari fjármálaáætlun. Það má vel vera að þetta séu bara stóru línurnar eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan en ég myndi segja að það væri frekar stór lína ef það á að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég velti því líka upp í þessu samhengi hvar umrædd skýrsla Haralds Líndals Haraldssonar er, sem svo oft hefur verið vitnað í en við fáum aldrei opinberlega fram. Það er búið að vinna þessa skýrslu. Er óþægilegt að fá þessa skýrslu núna rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar? Ég veit það ekki. Þær tölur hafa flogið út um allt þannig að það er í góðu lagi að segja þær. Það vantar 9 milljarða, eins og hv. þm. Guðbrandur Einarsson sagði hérna áðan, í málaflokk fatlaðra. Þar af eru það 5 fyrir Reykjavíkurborg. Árið áður voru þetta 5 milljarðar. Þetta eru ótrúlegar upphæðir. Þetta er næstum því bara útgjaldasvigrúm hjá ríkissjóði sem er um 1% raunvöxtur á ári. Þetta er verulega þungur málaflokkur. Þetta heldur aftur af fjárfestingarsvigrúmi sveitarfélaganna og það er hvergi minnst á þetta í þessari fjármálaáætlun. Það er hvergi minnst á tekjuskiptinguna. En það standa auðvitað miklar vonir til að farsældarfrumvarp hæstv. barnamálaráðherra muni ganga mjög vel og að þessi eini og hálfi milljarður sem það mun kosta, og hluti fer í gegnum jöfnunarsjóð, verði nægur. Ég á nú eftir að sjá það.