152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[15:34]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Já, ein af þeim leiðum sem hafa verið nýttar til að koma fjármagni til sveitarfélaga er í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hann hefur komið sér vel fyrir lítil og ósjálfbær sveitarfélög. En að sama skapi greiða sveitarfélög eins og Reykjavík bara talsvert með sjóðnum. Skemmst er að minnast stefnu Reykjavíkurborgar gagnvart sjóðnum eða gagnvart ríkinu og gerir kröfu um 8,7 milljarða vegna þess að borgin hefur ekki fengið framlög úr sjóðnum t.d. vegna reksturs grunnskóla, eða framlög til nýbúafræðslu, til að kenna börnum af erlendum uppruna að aðlagast samfélagi okkar. Það liggur fyrir kæra. Það er svolítið merkilegt að sjá hvernig þessi sjóður er fjármagnaður. Það ræðst af því hvað ríkið hefur í tekjur, stundum minna, stundum meira. Hv. þm. Stefán Vagn Stefánsson minntist á það hér ekki fyrir löngu síðan að það þyrfti að gera breytingar á þessu. Sveitarfélögin yrðu að fá að vita hvað rynni til þeirra til að geta veitt þá þjónustu sem þau svo sannarlega verða að veita samkvæmt lögum. Og ég spyr hv. þingmann: Er þetta ekki óréttlæti að að verið sé að svelta eitt sveitarfélag sem leggur þessum sjóði verulega fjármuni til? Væri ekki rétt að breyta þessu fyrirkomulagi sjóðsins á einhvern þann hátt að það væru fastari og reglubundnari tekjur og sveitarfélög gætu þá áttað sig á því hvað þau fengju í sinn hlut?