152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég var að nefna stofnframlögin á tímabili þessarar áætlunar. Vissulega hafa þau minnkað, t.d. frá 2016 um 12 milljarða. Það eru 12 milljarðar frá 2016–2022 miðað við áframhald þessarar áætlunar. Til að koma til móts við þær eitt þúsund íbúðir sem vantar að byggja á hverju ári þyrfti 7 milljarða, minna en það var 2016. Merkilegt nokk.

Stjórnarliðar og ráðherra kvörtuðu undan því að ekki hefði tekist að koma öllum stofnframlögunum út. Hluti af vandamálinu þar er líka skipulagsleysi stjórnvalda, í því t.d. að setja fjármálaáætlun fram. Við hverju búast sveitarfélögin núna? 8,7 milljörðum í stofnframlög af því það er það sem stendur þarna. Þannig þurfa þau þá að skipuleggja sig í uppbyggingu og eiga von á því að geta sótt það. Ætlar ríkisstjórnin að bæta einhverju við seinna? Þá tekur það tíma fyrir sveitarfélögin að skipuleggja fyrir þá viðbót.

Það er rosalega mikilvægt að þegar ný ríkisstjórn kemur fram með nýjan stjórnarsáttmála leggi hún hann fram í fjármálaáætlun, fyrstu fjármálaáætlun sinni. Stefna þessarar ríkisstjórnar mun vera þessi, kosta þetta og skila þessum árangri. En stefnan kostar ekki neitt af því að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt. Hún nær engum árangri nema þeim sem einhverjir aðrir ætla að ná. Hún varpar þessu bara yfir á sveitarfélögin, það sem þau geta byggt, eða vinnumarkaðinn, það sem þau geta samið um. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar samkvæmt þessari fjármálaáætlun. Þetta er stefnuleysi. Þetta er algjört stefnuleysi. Það þýðir engin áætlun, það þýðir ekkert skipulag og það er bara glundroði.