152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Forseti. Fjármálaáætlun sú sem hér er til umræðu gefur tilefni til þess að við horfum björtum augum til framtíðar, enda góð teikn á lofti og horfur í ríkisrekstri með nokkrum ágætum. Áætlunin styður á margvíslegan hátt við þá velsæld sem byggst hefur upp á Íslandi á síðustu árum þrátt fyrir efnahagsþrengingar af völdum heimsfaraldursins. Meðal þeirra markmiða er aukinn stuðningur stjórnvalda við vísindi og nýsköpun. Á nýliðnu kjörtímabili var stuðningur til handa nýsköpun aukinn og er árangurinn mælanlegur og skipar Ísland sér í 17. sæti meðal þjóða heims þegar litið er til nýsköpunarvirkni. Framlög til málaflokksins námu tæpum 14 milljörðum kr. á nafnvirði árið 2017 en eru nú um 29 milljarðar í fjárlögum ársins 2022 og er áætlað að þau haldi áfram að vaxa út gildistíma þessarar áætlunar og verði u.þ.b. 32 milljarðar að fimm árum liðnum og þá erum við að tala um tæpa 150 milljarða á tímabili áætlunarinnar. Þá er mikilvægt að halda til að haga að gert er ráð fyrir því að mæta tímabundnum hækkunum vegna heimsfaraldursins en framlög voru stóraukin með tímabundnum ráðstöfunum með það að markmiði að skapa störf. Fjármálaáætlun þessi byggir því á góðum grunni í þeim efnum. Áfram verður lagt upp með að hér sé vísindastarf á heimsmælikvarða, að sú þekking, hugvit og nýsköpun sem skapast hefur hér á landi haldi áfram að mæta þörfum framtíðarinnar í hinum ýmsu greinum. Það er mikilvægt að styðja áfram við grunnrannsóknir og halda utan um fjárhagslegan stuðning við rannsóknastarf víðs vegar um landið, en fjölbreyttar rannsóknir fara nefnilega fram í öllum landshornum og mikilvægt að styðja áfram við slíka uppbyggingu.

Á vettvangi sveitarfélaganna er brýnt að taka á helstu áskorunum sem við þeim blasa. Víða út um land fer íbúum fækkandi, samsetning íbúa styður sömuleiðis við þá þróun. Atvinnulíf er víða fábrotið og stendur völtum fótum. Lykilþáttur í þeirri byggðaþróun sem við viljum sjá til næstu ára er að störf flytjist í meira mæli út á land. Heimsfaraldurinn sýndi okkur glöggt hversu mörg störf má vinna án staðsetningar. Það er um margt ákjósanlegt fyrir ungt fólk að flytjast í kyrrðina á landsbyggðinni, þar sem bæði er hagkvæmara að koma undir sig fótunum og aðgengi að þjónustu, svo sem leikskólum, er ívið betra en þekkist í fjölmennari sveitarfélögum. En það er háð því að fólk finni sig öruggt, geti unnið fjölbreytt störf og hafi þá innviði sem þarf til þess. Stefnumótun stjórnvalda í byggðamálum snýr að því að treysta og efla sveitarfélögin, stuðla að sjálfbærni þeirra með tilliti til efnahags, samfélags og umhverfis. Það er mikilvægt að efla þrótt og bolmagn sveitarfélaga til að þau geti verið fjárhagslega sjálfstæð og staðið undir lögbundnum skyldum sínum. Þetta höfum við margrætt í fjárlaganefnd í gegnum þau ár sem ég hef setið þar og enn erum við ekki komin að niðurstöðu en það er verið að vinna að sviðsmyndalíkani sem sýnir hvernig slík sveitarfélög þurfa að líta út og síðan er heildarskoðun regluverks jöfnunarsjóðsframlaga samhliða þessari endurskoðun tekjustofna kerfisins nú í farvatni. Við höfum einmitt fengið kynningu á því í nefndinni.

Áframhaldandi uppbygging fjarskipta og stafrænnar þróunar styður m.a. við þá byggðaþróun sem hér segir en einnig við fjölmörg önnur verkefni og markmið stjórnvalda enda er um umfangsmikinn málaflokk að ræða í nútímasamfélagi. Þar er vinna við ljósleiðaravæðingu veigamikil en enn þá eru 12.000 heimili án ljósleiðara. Úr þessu munum við bæta. Þegar litið er til farneta verður áfram unnið að regluverki þar að lútandi og uppbyggingu senda sem styðja við 5G-farnet, enda er það mikilvægur öryggisþáttur. Það þekkjum við sem keyrum talsvert um hinar dreifðu byggðir að það eru sums staðar dauðir punktar. Þá er líka verðugt að halda á lofti þeim kynjasjónarmiðum sem slík þróun styður við því að fjölbreyttari störf kalla á fjölbreyttari starfsmannahóp og styður þar með við bæði byggðaþróun og markmið stjórnvalda um jafnrétti í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Bættar samgöngur styðja bæði við þróun byggða og loftslagsmarkmið stjórnvalda. Styttri vegalengdir spara útblástur og uppbygging rafhleðslustöðva styður við orkuskipti í bílaflotanum. Á síðasta kjörtímabili var ráðist í tugmilljarða skattaívilnanir vegna rafmagnsbíla. Það er bæði til að hraða orkuskiptum og stuðla að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040, en hlutfall nýskráðra bíla sem styðjast að öllu leyti við rafmagn er nú tæp 40%, þá eru tengiltvinnbílar um 30% það sem af er þessu ári. Mikilvægt er að hafa í huga að umferð er enn að aukast. Þar af eru nýjar stoðgreinar í atvinnurekstri stór hluti en bæði fiskeldi og ferðaþjónusta auka umferð svo um munar. Það er því mikilvægt að halda áfram á þessari rafrænu vegferð, enda ávinningurinn mikill í ljósi þess hve veigamikill þáttur í losun gróðurhúsalofttegunda útblástur ökutækja er, en um þriðjungur losunar er frá samgöngum. Þá erum við með skipin þar innifalin. En bættar samgöngur eru aldeilis ekki aðeins til handa einkabílnum. Það gefur kannski augaleið en stærstur hluti umferðar hér á landi er á höfuðborgarsvæðinu, eðlilega, en samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, uppbygging borgarlínu, mun stórbæta almenningssamgöngur sem er ekki síður mikilvægur þáttur í bættur lífskjörum en í loftslagsmálum; minna svifryk og minni umferð.

Þá vil ég sérstaklega halda á lofti markmiðum um bætt þjónustustig löggæslunnar og þeim 200 millj. kr. sem renna til þess að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota í samræmi við áherslur stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Eins og ég sagði hér í upphafi gefur fjármálaáætlun tilefni til bjartsýni eins og þessi upptalning gefur til kynna þrátt fyrir að vera aðeins brotabrot af boðuðum aðgerðum og þrátt fyrir að hér hafi verið ræddur dauði og djöfull í þingsal í dag sem fylgi þessari fjármálaáætlun að mati stjórnarandstöðunnar a.m.k. Ég tel það mikilvægt að við höldum áfram að vaxa út úr þeirri efnahagslægð sem fylgdi í kjölfar heimsfaraldursins. Ég sagði nýverið í grein í Morgunblaðinu að óhjákvæmilegt væri að umræðan hverfðist um óvissuþætti enda ljóst að alltaf eru einhverjar blikur á lofti, síðustu ár vegna faraldursins, nú vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og stríðsins þar.

Nokkuð hefur verið fjallað um þensluhvetjandi efnahagsaðgerðir vegna heimsfaraldursins og því jafnvel haldið fram að ríkissjóður hafi verið kominn út í horn áður en hann skall á. Gott og vel. Ég vil svara því til að það var sterk staða ríkissjóðs og lágt skuldahlutfall sem gerði okkur kleift að ráðast í mikilvægar aðgerðir vegna faraldursins af myndugleik. Það er ekki endilega til eftirbreytni að halda úti stórkostlegum ríkisstuðningi við hagkerfið til langframa, enda stendur það ekki til, aðgerðir vegna faraldursins voru alltaf tímabundnar. Þá komu vaxtalækkanir Seðlabankans sér vel fyrir fyrstu kaupendur sem sést best á fjölda seldra íbúða síðustu ár. Ég tel það mikilvægt þegar kallað er eftir aðgerðum vegna verðbólgu að þær hafi tilskilin áhrif, og valdi ekki frekari verðbólgu eða hækki vexti. Sértækar aðgerðir ættu að nýtast þeim sem síst hafa notið góðs af hækkunum á húsnæðisverði. Í þessu samhengi má nefna að 500 milljónum verður ráðstafað í þágu húsnæðisbóta til handa þeim sem verst standa á húsnæðismarkaði.

Virðulegi forseti. Við erum alltaf undirsett utanaðkomandi áhrifum. Það er alveg rétt að verðhækkanir erlendis, t.d. vegna stríðsins, geta haft áhrif verðbólgu og verðlag hérlendis sem og annars staðar. Það sama á við um aðgerðir stjórnvalda víða um heim eins og gerðist vegna Covid. Ábyrg ríkisfjármálastjórnun felst í því að búa í haginn þegar vel gengur og stíga inn af þunga þegar þess gerist þörf. Það gerðum við á síðasta kjörtímabili og það munum við gera líka á þessu komandi kjörtímabili. Við erum viðbúin, við gerum það í gegnum verkfæri eins og fjármálaáætlun. Við reynum að halda þétt utan um þá sem þess þurfa á að halda og það höfum við gert með ýmsum aðgerðum fram til þessa, m.a. í velferðarkerfinu þar sem við höfum lækkað greiðsluþátttöku, búið til nýtt tekjuskattsþrep. Við höfum verið með auknar greiðslur í húsnæðisbætur til handa þeim sem eru á leigumarkaði o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég tel að við séum að leggja hér fram fjármálaáætlun sem styður við áframhaldandi starf sem hér var hafið á síðasta kjörtímabili.