152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður segir hér að við getum horft björtum augum til framtíðar. Ég skil eiginlega ekki hvað hv. þingmaður á við með því miðað við þá fjármálaáætlun sem við höfum hér fyrir framan okkur, þegar við horfum til nokkurra lykilatriða, grunnstoða í samfélaginu. Tökum bara heilbrigðiskerfið, við gætum svo sem tekið húsnæðiskerfið líka: Við erum nýbúin að fá skýrslu sem segir að ef við gerum nákvæmlega það sem stendur í fjármálaáætluninni, 2% hækkun á hverju ári, muni það hafa mjög slæmar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið, hafa í för með sér 9 milljarða aukinn kostnað umfram það sem yrði ef gripið yrði til mótvægisaðgerða. Þær mótvægisaðgerðir eru ekki í þessari fjármálaáætlun. Það er alveg skýrt.

Það kemur þó mest á óvart að ekkert nýtt kemur fram í skýrslunni. Þar er vissulega nákvæmari greining en það er nákvæmlega það sem fulltrúar heilbrigðiskerfisins hafa verið að reyna að tyggja ofan í okkur í fjárlaganefnd ár eftir ár, alltaf það sama, það kemur ekkert á óvart. Miðað við fjármálaáætlunina eins og við höfum hana fyrir framan okkur í dag, hvernig getum við þá horft björtum augum til framtíðar og líka miðað við skýrsluna sem við höfum undir höndum þar sem okkur er sagt að það sé ekki satt? Þýðir það þá að ríkisstjórnin ætli að bregðast við því á einhvern hátt? Ætlar hún þá að gera það í breytingum á þessari fjármálaáætlun eða þarf það að bíða eitt ár í viðbót?