152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er auðvitað að mörgu að hyggja í þessu og ég get alveg tekið undir það að við getum þurft að endurskoða vaxtabótaþáttinn og ég tel að við þurfum að velta því fyrir okkur núna í ljósi stöðunnar ef verðbólga og annað slíkt fer á flug eins og við erum kannski að horfast í augu við núna. Ef það er eitthvað sem verður langvarandi ástand þurfum við kannski að huga að því. Varðandi neysluskattana þá er auðvitað, eins og hv. þingmaður veit, fyrst og fremst verið að tala um í skattamálum í þessari fjármálaáætlun breytta skattinnheimtu á ökutækjum, sökum þess að það svið er að breytast og sem betur fer erum við með aukinn fjölda rafmagnsbifreiða. Það er kannski það sem mér finnst vera aðalmálið í þessu, að það gerist fyrr en seinna. Varðandi aðra neysluskatta beint eins og við höfum verið að gera (Forseti hringir.) varðandi virðisaukaskattinn, sem er náttúrlega stærsti neysluskatturinn, þá tel ég ekki að við eigum að hækka hann, svo það sé sagt.