152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:52]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég þekki þennan vettvang ágætlega eftir að hafa verið starfandi á honum í rúm 20 ár. Það gefur auðvitað augaleið, og það ætti allt fólk að sjá, að forsendan fyrir því að gerðir séu hófstilltir kjarasamningar er að hinn félagslegi stöðugleiki sé til staðar. Það er talað um efnahagslegan og félagslegan stöðugleika í stjórnarsáttmálanum. En við sjáum svo sannarlega ekki að til staðar sé einhver félagslegur stöðugleiki þegar verðbólga er á fleygiferð, verðlagsbreytingar eiga sér stað og fólk er í vandræðum með að fá þak yfir höfuðið. Þetta er auðvitað snúið mál og gerir það að verkum að verkalýðshreyfingin verður að setja fram launakröfur, kröfur um launabreytingar sem eru talsvert umfram áætlaða verðbólgu, því að annars er ekki kaupmáttarauki. Það gefur bara augaleið.

Það er búið að tala um að það vanti lóðir. Það er endalaust bull um að það vanti lóðir. Reykjanesbær er t.d. núna í viðræðum við Bjarg um að þeir komi og hefji uppbyggingu í Reykjanesbæ og mörg sveitarfélög eru að gera slíkt hið sama. Það er því ekkert mál að deiliskipuleggja eina lóð eða íbúðarhúsnæði fyrir tekjulága, það er minnsta málið. Þetta er í mínum huga bara bull og þvaður hvernig verið er að nálgast þetta. Ég held að ef við ætlum að ná samstöðu um einhvern efnahagslegan stöðugleika verði þessi félagslegi stöðugleiki að vera til staðar.