152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:59]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vel það hér við fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun 2023–2027 að nálgast umræðuna út frá því hvaðan við erum að koma og hvert við erum að stefna. Við þekkjum það vel að áföll, utanaðkomandi áhrif og breytingar geta á skömmum tíma breytt sterkum og góðum horfum í óvissu og kallað á viðbrögð. Við þekkjum það líka að þegar betur árar geta skapast tækifæri og hagur okkar batnað á nýjan leik þannig að það á oft vel við að skjótt skipast veður í lofti, eins og sagt er. Það mætti vel ramma það verkefni inn við framlagningu og umræðu um fjármálaáætlun að horfa til þess að það eru ýmsir kraftar í okkar umhverfi sem við höfum ekki endilega stjórn á sem geta haft mikil áhrif.

Við leggjum af stað í þinglega meðferð á fjármálaáætlun sem er sú fyrsta sem er lögð fram af þessari ríkisstjórn, ríkisstjórn sem hefur leitt og borið ábyrgð á að stýra þjóðarskútunni, eins og við höfum stundum orðað það undanfarin ár, ríkisstjórn sem fékk í haust endurnýjað sterkt umboð til að halda um stjórnartaumana.

Í mínum huga þarf fjármálaáætlun fyrst og fremst að skapa ramma utan um fjármál ríkissjóðs þannig að hægt sé að sjá hvert stefnir, að þjóðarbúinu vegni sem best á hverjum tíma, að þau mikilvægu verkefni sem hið opinbera rekur og sér um, hvort sem það er á sviði heilbrigðis, velferðar, menntunar, eða framkvæmda eða annarra verkefna sem við komum okkur saman um, séu í traustum höndum og vel haldið utan um þau og þau hafi fyrirsjáanleika. Það er ein af stóru breytingunum eftir að við fórum að nota fjármálaáætlun sem hina opinberu áætlanagerð í ríkisfjármálum til lengri tíma að það hefur skapað hinum ýmsu verkefnum og stofnunum hins opinbera meiri fyrirsjáanleika til að stýra sinni starfsemi yfir lengri tíma. Ég held að lögin, sem við nefnum oft hin nýju lög um opinber fjármál en verða nú reyndar komin nokkuð til ára sinna, eru frá 2015, hafi einmitt dregið fram þann styrkleika að geta horft til lengri tíma í áætlanagerð og áherslum sem við getum lagt í rekstri hins opinbera.

Almennt um þessa þingsályktunartillögu gæti ég sagt, og kannski segi ég eins og ég segi alltaf þegar ég tek til máls um fjármálaáætlun að lagt er af stað af miklum metnaði og mikilli ábyrgð. En eins og oft áður er ramminn þaninn til hins ýtrasta, það verð ég að segja, virðulegi forseti, nú sem áður. Mestu skiptir að við höldum þannig á málum að við endurreisum trú og forsendur fyrir því að tækifæri geti skapast og að við endurspeglum fyrst og fremst okkar áherslur, hvort sem það er í ríkisfjármálum eða öðrum okkar athöfnum, að við trúum á það að við reisum okkur hratt við, að við getum aftur stækkað þjóðarkökuna og aukið landsframleiðsluna.

Fyrir ekki svo mörgum mánuðum reis hér upp heimsfaraldur. Kannski kom hann okkur á óvart. Við héldum kannski að slíkir atburðir heyrðu sögunni til, að þetta gæti ekki gerst í samfélagi okkar daga, til þess værum við með þekkingu og færni til að ráða við slíkt, en þannig var nú heimurinn, faraldurinn skall á okkur af fullum þunga með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahag okkar. Það þurfti að bregðast við. Ríkissjóði var beitt af fullri hörku til að verja efnahag heimilanna og verja atvinnutækin í gegnum faraldurinn. Við gátum það vegna þess að ríkissjóður var í sterkri stöðu. Verulegur samdráttur í tekjum ríkissjóðs varð í þessu áfalli vegna minni umsvifa og beinar aðgerðir til stuðnings hafa sett ríkissjóð í verulegan hallarekstur. Þetta gátum við gert og þetta gerðum við fullviss þess að við myndum rétta fljótt úr kútnum að nýju. Það mælist m.a. í því að í einum af forsendum fjármálaáætlunar, sem við nú ræðum, eru ýmsar spár mjög jákvæðar, t.d. er atvinnuleysi á niðurleið. Það fór hæst í 11,6% í janúar 2021 en hefur minnkað hratt og er nú um 5% og forsenda fjármálaáætlunarinnar að atvinnuleysi verði um 4%. Umfangsmestu efnahagsaðgerðir seinni ára vegna heimsfaraldurs grundvölluðust á sterkri stöðu ríkissjóðs og skiluðu ótvíræðum árangri. Horfur eru nú á að landsframleiðslan taki hraðar og betur við sér síðan spár voru gerðar við setningu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.

Í gögnum fjármálaáætlunar kemur fram að sambærilegur tekjusamdráttur varð ekki hjá sveitarfélögum vegna aðgerða ríkissjóðs. Hvað sem okkur finnst um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem við getum öll verið sammála um að á hverjum tíma þarf að ræða og endurskoða með einhverjum hætti, þá er minni samdráttur hjá sveitarfélögunum en hjá ríki í gegnum þetta áfall. Með þessu, virðulegi forseti, er ég ekki að segja að allt sé í himnalagi, síður en svo. Það samtal þarf að taka áfram og við höfum líka haft puttann á púlsinum á því samtali í fjárlaganefnd og munum gera það áfram.

Skuldastaða hins opinbera var ekki fyrirstaða í baráttunni við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs. Þar var svigrúm til skuldaaukningar. Samfélagið stóð traustum fótum á grunni ábyrgrar hagstjórnar árin þar á undan. Nú skiptir máli að leggja og treysta grunninn á nýjan leik. Markmið stjórnvalda miðar að því að draga jafnt og þétt úr afkomuhalla og stöðva skuldasöfnun árið 2026 þannig að grunnurinn verði treystur á nýjan leik til að takast á við óvænt áföll til framtíðar. Ég vil t.d. minna á að sala á Íslandsbanka gegnir þar miklu hlutverki og ekki því þýðingarminnsta. Með því að losa um eigur ríkisins er lánsfjárþörf minnkuð og vaxtagreiðslur sparaðar til lengri tíma. Þegar hafa verið seldir eignarhlutir fyrir um 108 milljarða kr. Áætlað er að minni lánsfjárþörf spari milljarða króna í vaxtaútgjöld sem nýtast þá til að styðja við fjárfestingaráform ríkisins, en fjárfestingar ríkisins undirbyggja framtíðarhagvöxt og styðja við sókn til betri lífskjara.

Forseti. Ég dreg þetta hér fram sérstaklega vegna þess að fjárfestingaráform sem nú eru birt í þessari fjármálaáætlun, er snúa að rannsókna- og nýsköpunarmálum, þýða að ríflega 25 milljörðum kr. verður varið til þess málaflokks á næstu árum og á áætlunartímanum verður hækkað í um 30 milljarða árið 2027. Ástæða er til að nefna þetta hér því að í mínum huga er markmið okkar að fjölga þeim stoðum sem samfélagið okkar byggir á. Ég nefndi áðan, virðulegur forseti, að við þyrftum að horfa líka á hvaðan við komum. Þetta þýðir t.d. að á árinu 2020 jafngiltu tekjur sem voru grundvallaðar á átaki til að efla nýsköpun og þróun 2,5% af landsframleiðslu. Frá því að Hagstofa Íslands hóf að mæla það sérstaklega hefur Ísland færst upp í 17. sæti af 132 þjóðum er varðar nýsköpunarvirkni og hefur hækkað úr 23. sæti á fjórum árum. Útflutningstekjur byggðar á hugvitsgreinum eru nú um 10% af útflutningi okkar. Þær hafa tvöfaldast frá árinu 2014 og um 50% frá árinu 2018. Í þessari fjármálaáætlun er haldið áfram á þeirri braut.

Það skiptir máli að við fjölgum stoðum sem bera uppi samfélagið. Það skiptir máli að við hugum að því hvernig við aukum verðmætasköpun og hvernig við ætlum að bæta lífskjör. Að þessu sögðu skiptir líka máli að halda áfram að þróa hina hefðbundnu atvinnuvegi okkar og tryggja nýsköpun og rannsóknir innan hinna gömlu, grónu atvinnugreina og fara ekki þá leið að raska starfsumhverfi þeirra og reisa hér á hverjum tíma einhverja óvissu um hvernig umhverfið verður til lengri tíma. Ég vona, virðulegi forseti, að við getum borið gæfu til að huga að slíkum málum í meðferð þingsins á þeirri fjármálaáætlun sem við hér nú ræðum.

Mig langar að lokum, virðulegi forseti, að færa í tal, í þessari umferð umræðu um fjármálaáætlun, mál sem ég og nokkrir þingmenn höfum ítrekað tekið upp í þingsalnum sem snýr sannarlega að horfum í efnahagsmálum og horfum í þjóðarbúskap okkar, sem er í mínum huga stórt vandamál til að takast á við, sem er hækkandi matvælaverð. Við vitum öll áhrif hækkandi matarverðs á afkomu heimilanna og við vitum öll hvernig horfir í þeim efnum, ekki bara vegna innrásar Rússa í Úkraínu heldur ekki síður vegna þess að sú þróun hafði raunverulega hafist áður og verðlag á heimsmörkuðum hækkað verulega. En í umræðum sem við höldum hér áfram með, seinni hluta umræðu um fjármálaáætlun, þegar við förum að ræða einstaka málaflokka við viðkomandi ráðherra, þurfum við að taka það samtal við hæstv. matvælaráðherra hvernig við getum búið um hnútana þannig að við styrkjum og eflum innlenda matvælaframleiðslu því að innlend matvælaframleiðsla, rétt eins og innlend orkuframleiðsla og nýting innlendra orkugjafa, er hluti af hagvörnum okkar og eflir þjóðarhag okkar og efnahagslíf.