152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:18]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ánægjulegt að heyra hv. þingmann Sjálfstæðisflokksins viðurkenna það með frekar afdráttarlausum hætti að of lágt verð hefði fengist, eftir á að hyggja, fyrir hlut ríkisins í Íslandsbanka í frumútboðinu í fyrra. Það eru nokkur tíðindi og ég er einmitt sammála honum um það. En mig langar að víkja að allt öðru máli. Það er Sjúkrahúsið á Akureyri sem er ekki bara varasjúkrahús landsins heldur hornsteinn heilbrigðisþjónustu á öllu Norðurlandi. Við í þingflokki Samfylkingarinnar fórum og áttum gott samtal við stjórnendur sjúkrahússins í kjördæmavikunni og þar var farið vel yfir þann rekstrarvanda sem sjúkrahúsið stendur frammi fyrir. Hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Hilda Jana Gísladóttir, fór líka vel yfir það í ræðu á dögunum hvernig skerða þarf þjónustu hjá sjúkrahúsinu vegna þessa fjársveltis. Nú hefur t.d. verið ákveðið að loka barna- og unglingageðdeild í fimm vikur yfir sumartímann, sinna aðeins bráðaþjónustu, loka dag- og göngudeild geðdeildar, sinna aðeins bráðaþjónustu, loka á Kristnesi sem sinnir öldrunar- og endurhæfingarþjónustu og auðvitað mætti nefna ýmislegt fleira, því miður. Ég er alveg viss um að hv. þingmaður er sammála mér um að þetta sé óboðlegt og það sé mikilvægt að tryggja að Sjúkrahúsið á Akureyri geti sinnt óbreyttri starfsemi og haldið sjó og gott betur. Það eru því ofboðsleg vonbrigði að sjá fjármálaáætlun þar sem gert er ráð fyrir 2 milljarða aukningu rekstrarútgjalda til sjúkrahúsþjónustu og hún dreifist á almenna sjúkrahúsþjónustu, sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og erlenda sjúkrahúsþjónustu, tvo spítala. Þetta eru 2 milljarðar á ári og hv. þingmaður er nú eldri en tvævetur (Forseti hringir.) og veit alveg að þetta er smotterí í stóra samhenginu þegar kemur að heilbrigðismálum. Finnst hv. þingmanni boðlegt að svona sé gengið fram?