152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágætar útskýringar. Það er mikið rétt að þarna er útskýringum á þessu komið fyrir. Ég er sammála hæstv. ráðherra að það þarf með einhverjum hætti að auka svigrúmið til þess að hægt sé að bregðast við breytingum. Ég hef stundum sagt það í gríni að þegar ég starfaði í samgönguráðuneytinu 2006 var Teigsskógur bara rétt u.þ.b. að komast af stað og í raunheiminum erum við að komast af stað núna, 2022. Verklegar framkvæmdir eru því marki brenndar að tímalínan getur verið ótrygg.

Ég kannski nýti tækifærið og spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að lög um opinber fjármál bjóði upp á svigrúm til þessa sveigjanleika eins og þau liggja fyrir. Núna erum við t.d. með samgönguáætlun, framkvæmdaáætlun til fimm ára og langtímaáætlun til 15 ára, þannig að maður skyldi ætla að það lægi nokkuð vel fyrir, og við höfum aldeilis rætt það hér í þessum sal, með hvaða hætti framkvæmdaröðin ætti að vera, bæði innan fimm ára áætlunarinnar og 15 ára. Hvað er það sem þarf að líta til í lögum um opinber fjármál til að við getum stillt þessar sveiflur betur af hvað varðar verkefni sem við hreinlega komumst ekki áfram með vegna skipulagsmála eða hvað sem það kann að vera. Þetta hefur verið viðvarandi svo lengi, þetta ástand. Ég hreinlega trúði því ekki að við værum enn í þessari stöðu, með alla þessa óvissu innbyggða, eins og hér er teiknað upp hvað aðra ótilgreinda fjárfestingu varðar sem endar í 23,4 milljörðum árið 2027, sem er fjórðungur eða fimmtungur af heildarfjárfestingunni. Hvað er það, hæstv. ráðherra, sem við þurfum helst að líta til í lögum um opinber fjármál til að laga þetta? (Forseti hringir.) Og má vænta þess að tillögur um slíkt komi fram og jafnvel einhvers lags heildargreining og mat og endurskoðun á lagabálkinum?