152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem kannski varðar ekki beint fjármálaáætlun. Hún nefnir hér frumvarp sem varð að lögum 2018, um mismununarþætti á vinnumarkaði, og annað frumvarp sem nú liggur fyrir um að sambærilegir mismununarþættir gildi þegar um er að ræða mál utan vinnumarkaðar. Ég nefni það við hv. þingmann að kærunefnd jafnréttismála felldi úrskurð á þessu ári sem varðaði aldursbreytuna og er það ákveðinn tímamótaúrskurður hjá kærunefnd jafnréttismála. Hann er sá fyrsti sinnar tegundar og var svo sem töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum, tengdist uppsögn hjá Isavia vegna aldurs. Þar í fyrsta sinn lagði kærunefnd jafnréttismála mat á þetta út frá mismununarþættinum aldri. Ég skildi hv. þingmann þannig að hún velti fyrir sér hvort þessir þættir hefðu verið teknir til umfjöllunar. Þar má nefna þennan úrskurð. Hv. þingmaður spurði í framhaldinu hvort ég teldi að lögin væru ekki að gera gagn. Jú, ég tel að lögin séu að gera gagn og ég vænti þess að við eigum eftir að fá fleiri mál upp sem lúta að öðrum mismununarþáttum en kyni og að fjölþættri mismunun eins og gert er ráð fyrir í lögunum.