152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:08]
Horfa

Helga Þórðardóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir 16,3 milljörðum í húsnæðis- og skipulagsmál, þar af fari stærstur hluti eða 15,9 milljarðar í húsnæðismál. Samkvæmt þeirri fjármálaáætlun sem við ræðum hér er gert ráð fyrir því að framlög til málaflokksins lækki í 14,9 milljarða á næsta ári eða um 9% og haldist svo gott sem óbreytt næstu fjögur ár. Á sama tíma er fordæmalaus skortur á framboði húsnæðis sem hefur leitt til þess að undanfarið ár hefur húsnæðisverð hækkað um meira en 20% og verðbólga mælist nú 6,7%. Jafnframt er fyrirsjáanlegt að stríðið í Úkraínu muni valda stórfelldum hækkunum á byggingarefni og þær eru þegar byrjaðar að láta á sér kræla. Ég vil því inna ráðherra eftir skýringum á því að gert sé ráð fyrir slíkri lækkun á framlögum til húsnæðismála og engri hækkun á þeim næstu fjögur ár. Þarf ekki að gera ráð fyrir verðlagshækkunum á tímabilinu? Þarf ekki að gera ráð fyrir fólksfjölgun á tímabilinu, ekki síst í ljósi þess að aðfluttir umfram brottflutta hafa sjaldan eða aldrei verið fleiri? Þarf svo ekki líka að auka framlögin umfram þessa þætti svo hægt sé að auka uppbyggingu á nýju húsnæði til að bregðast við framboðsskortinum?

Og talandi um framboðsskort sem má rekja til skorts á lóðaframboði sem er á ábyrgð sveitarfélaga en hæstv. ráðherra fer einmitt líka með sveitarstjórnarmál: Hvaða aðgerðir eru í gangi til að skapa aukna hvata fyrir sveitarfélög til að brjóta meira land undir byggð, skipuleggja lóðir og úthluta af þeim til nýbygginga? Hefur ráðherra kallað eftir samráði við sveitarfélögin og samtök þeirra um þessi málefni eða hyggst hann gera það? (Forseti hringir.) Stendur til að semja við sveitarfélög um nýtingu landrýmis í eigu ríkisins undir íbúðabyggð þar sem það á við?