152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Mig langar að ræða aðeins loftslagsmálin vegna þess að undir hæstv. ráðherra er sá málaflokkur sem ræður einna mest um það hvort stjórnvöld nái árangri í þeim hluta losunar sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda, sem eru samgöngurnar. Þær eru svona þriðjungur af þeirri losun. Við sáum það í skýrslu frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna sem kom út í gær að þar er talað um að hápunktur þurfi að nást ekki seinna en 2025 í losun. Eftir þann tíma þarf að fara að draga úr henni. Ég staldra nefnilega dálítið við að ýmsu varðandi framtíðarstefnu í þessum hluta samgöngumálanna er ýtt inn á seinni helming tímabils fjármálaáætlunar. Nýtt kerfi utan um skattlagningu ökutækja og aksturs og öll þessi hagrænu tæki sem þarf að fara að keyra í botn til að ná árangri eiga að fara að líta dagsins ljós eftir tvö til þrjú ár. Er það ekki of seint? Af hverju er ríkisstjórn sem er búin að sitja að völdum frá 2017 fyrst að fara að koma með svoleiðis verkfæri 2023, 2024 og 2025?

Það kom mér dálítið á óvart að sjá í kafla annars ráðherra, í kafla háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að þar væru sett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, sem er fínt, þau markmið þurfa að vera í fjármálaáætlun. En ég sé ekki betur en að þær tölur miði allar við gömlu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum þar sem samdráttur í losun á beinni ábyrgð (Forseti hringir.) stjórnvalda miðar við 29% eftir samkomulag við Evrópusambandið en í stjórnarsáttmála er talað um 55% samdrátt í þessum geira. (Forseti hringir.) Af hverju er ekki tekið mið af nýjum markmiðum í nýrri fjármálaáætlun?