152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:25]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi síðasta atriðið, að draga úr eknum kílómetrum, þá erum við auðvitað að vinna að því með alls konar uppbyggilegum hætti í samgöngukerfinu, styttingu vega, uppbyggingu Sundabrautar sem mun spara 150.000 km á dag á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi sé tekið. Þannig að það eru ýmsir slíkir þættir sem við verðum að vinna að. Ég er hins vegar ósammála þingmanninum um að það eigi að vera meginmarkmið vegna þess að meginmarkmiðið hlýtur að vera að skipta út bensín- og dísilbílunum. Þá mega þeir keyra meira. Til dæmis er eitt markmiðið að gera samning við bílaleigubransann á Íslandi. Það voru þegar hér var mest um 25.000 eða 26.000 bílaleigubílar sem mér skildist að hefðu verið álíka margir og í Noregi öllum á sínum tíma og mun sjálfsagt fjölga hratt vegna þess að ferðaþjónustan er sem betur fer að taka talsvert við sér. Það væri t.d. mjög göfugt markmið. En þá þurfum við á sama tíma að byggja upp innviðina hringinn í kringum landið og þar hefur okkur gengið ágætlega. En ég get alveg verið sammála þingmanninum í að við þurfum að gera betur á mörgum sviðum.

Svo vil ég að lokum segja það sama og hér var nefnt í fyrri ræðu um að við þurfum ekki endilega að bíða eftir öllum stefnum og markmiðum. Við getum gert fullt af hlutum og komið þeim áleiðis þó svo að það sé ekki búið að teikna það allt niður á blað af því að við erum að vinna í mjög skýra átt að þeim loftslagsmarkmiðum sem birtast í stjórnarsáttmálanum.