152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Þetta bar svolítið brátt að. Ég var enn þá að snurfusa það sem mig langaði að færa í tal. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans innlegg og þeim sem hafa talað hérna á undan og svo sem í allan dag líka. Það sem ég vildi aðeins fá að gera að umtalsefni mínu núna er samgöngusáttmálinn sem barst í tal áðan hjá hæstv. innviðaráðherra. Samgöngusáttmálinn og borgarlínan og það sem því fylgir er að mínu mati eitt mikilvægasta verkefnið sem íslenskt samfélag er að fara í núna á næstu áratugum, það er ekkert flóknara en það. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli upp á loftslagsmálin og umhverfismálin, upp á tímasparnað, upp á öryggi. Það eru eiginlega einhvern veginn allir þættir þarna undir. En nú hefur það verið þannig með þennan sáttmála að menn hafa ekki alveg allir gengið í takt. Nokkrir oddvitar Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu hafa t.d. verið að gagnrýna afmarkaða hluti sem fylgja þessum sáttmála, til að mynda borgarlínu, og sú afstaða hefur eflst ef eitthvað er núna í prófkjörum, eins og gerist reyndar gjarnan. Það kemur fram í fjármálaáætlun að borgarlína sé eitt af burðarverkefnunum í þessum samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og mig langaði að fá að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi áhyggjur af því að einmitt í þessu róti sem stundum fylgir kosningum geti umræðan pólaríserast meira og það sé einhver hætta á því að það verði ekki samkomulag um þessa vinnu sem á að fara í núna á næstu árum og lengra inn í tímann. Við erum auðvitað að tala um talsvert langt inn í framtíðina. Og eins þá í leiðinni, af því að núna stefnir Framsóknarflokkurinn að því að koma inn í þessa kosningabaráttu af fullum krafti með nýtt fólk í brúnni, en við höfum kannski ekki heyrt neitt skýrt um það hver afstaða flokksins á höfuðborgarsvæðinu er þegar kemur að sveitarstjórnarmálunum, til borgarlínu, svo dæmi sé tekið.