152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:47]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar eru loftslagsmál sett í forgang. Lögð er áhersla á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvána samhliða því að styrkja efnahagslega stöðu landsins og vera í forystu í orkuskiptum á alþjóðavísu. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er meginverkfæri stjórnvalda í baráttu gegn loftslagsvánni. Aðgerðir sem falla undir aðgerðaáætlun í loftslagsmálum snerta mörg málefnasvið og kalla á víðtækt samstarf margra ráðuneyta. Aðgerðirnar fela m.a. í sér ívilnanir og styrki, innviðauppbyggingu, lagabreytingar, fræðslu og nýsköpun. Hér vega þyngst ívilnanir til kaupa á vistvænum ökutækjum, innviðauppbygging vegna orkuskipta, rafvæðing hafna, orkuskipti í sjávarútvegi, kolefnisbinding, samdráttur í losun frá landi og samstarf við bændur um loftslagsvænni landbúnað.

Sett hafa verið fram tölusett markmið um væntan samdrátt í losun sem fylgir aðgerðunum sem og fjármögnun þar sem við á og viðmið vegna aðgerða vegna áhrifa loftslagsbreytinga á Íslandi. Önnur málefnasvið hafa einnig sett fram markmið og aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum líkt og á sviðum samgangna og orkumála. Aðgerðaáætlun er lifandi áætlun sem verður endurskoðuð reglulega með tilliti til nýrra markmiða og árangurs aðgerða en gert er ráð fyrir að frá og með næsta ári verði allar 50 aðgerðir í aðgerðaáætlun ríkisstjórnar komnar að fullu til framkvæmda.

Aukin framlög til loftslagsmála í þessari fjármálaáætlun, m.a. vegna bindingar og samdráttar gróðurhúsalofttegunda, nema uppsafnað um 1,6 milljörðum kr. á tímabilinu á málefnasviði 15 og 17, en þar á meðal er gert ráð fyrir 800 millj. kr. til að standa undir skuldbindingum Íslands vegna Kyoto-bókunarinnar fyrir annað skuldbindingartímabil 2013–2020 en samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunar mun vanta um 4 milljónir tonna CO2-ígilda upp á að Ísland standi við skuldbindingar sínar.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að því að efla náttúruvernd með friðlýsingum náttúruverndarsvæða og hefur umfang friðlýstra svæða aukist töluvert. Fram undan er vinna við stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir þessi svæði en slíkar áætlanir móta framtíðarsýn og stefnu um verndun svæðanna og hvernig skuli viðhalda verndargildi þeirra.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á stuðning til sveitarfélaga til að bæta ástand fráveitumála þannig að þau standist ýtrustu kröfur náttúruverndar um allt land en hækka þarf hlutfall íbúa sem búa við viðunandi skolphreinsun. Í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 3,2 milljarða kr. stuðningi til sveitarfélaga vegna verkefnisins en sveitarfélög geta sótt um styrki til að mæta hluta kostnaðar vegna fráveituframkvæmda. Stefnt er að því að hlutfall hreinsaðs skólps verði komið í 95% árið 2027 en þetta hlutfall er í dag um 81%.

Áfram verður unnið að því að tryggja virkni hringrásarhagkerfisins en hún felst í ábyrgri framleiðslu og neyslu og draga úr sóun með því að koma í veg fyrir myndun úrgangs og stuðla að bættri meðhöndlun hans með endurnotkun og endurvinnslu. Í ár verður um 500 millj. kr. varið til hringrásarhagkerfisins. Þar er stærsta framlagið styrkir til innviðauppbyggingar, nýsköpunar og þróunar á grundvelli stefnu um meðhöndlun úrgangs. Alls munu á tímabili fjármálaáætlunar 1,8 milljarðar renna til eflingar hringrásarhagkerfisins.

Orkumál eru loftslagsmál. Tryggja þarf orkuöryggi fyrir alla landsmenn þannig að jafnvægi verði á milli framboðs og eftirspurnar eftir raforku á landsvísu. Reiknað er með því að þetta jafnvægi náist á síðari hluta fjármálaáætlunar. Auka þarf hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands, bæði í samgöngum og haftengdri starfsemi, og stefnt er því að þetta hlutfall verði í lok áætlunarinnar komið í 16% hvað samgöngur varðar en 5% hvað haftengda starfsemi varðar en þessi hlutföll eru í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Rétt er að benda á tvö lagafrumvörp sem búið er að leggja fram á Alþingi og tryggja aukið orkuöryggi. Annars vegar er það frumvarp til breytinga á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar með það að markmiði að hraða uppbyggingu búnaðar til bættrar orkunýtingar vegna húshitunar á köldum svæðum og hins vegar frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun með það að markmiði að heimila tæknilega aflaukningu á virkjunum sem nú þegar eru í rekstri án þess að uppfærslan þurfi að fara í gegnum ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Hæstv. forseti. Þetta eru í mjög stuttu máli stóru línurnar hvað varðar þau málefnasvið sem undir mig heyra. Ég fagna því að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eiga samtal við þingmenn um einstök atriði hér á eftir.