152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:08]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir. Hv. þingmaður vísaði áðan í að fyrri spurning hafi verið stór. Þessi spurning er í rauninni miklu stærri. Báðar eru stórar og snerta mjög mikilvæga þætti. Hv. þingmaður vísar til markmiða varðandi grunnrannsóknir, vöktun og annað slíkt og vísaði líka sérstaklega til náttúruvár. Eitt af því sem við erum að horfa á þegar kemur að aðlögun að loftslagsbreytingum er það að við þurfum því miður að hafa meiri áhyggjur af hlutum eins og aurskriðum og öðru slíku. Ég nefni þetta vegna þess að ég lít svo á að það sé alltaf gott að líta á hvernig við myndum nálgast þetta ef við værum að byrja með autt blað. Í mínum huga er stóra myndin — ég ætla ekki að fara í nákvæm smáatriði vegna þess að þau liggja ekki fyrir — og það sem snýr að því ráðuneyti sem ég stýri þá er stærsti hlutinn af umfjöllunarefnunum, ef svo má að orði komast, á landsbyggðinni. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt og æskilegt að starfsfólk og starfsemi séu staðsett á landsbyggðinni, m.a. út af staðþekkingu, svo ég taki bara eitt dæmi. En það má nefna margt fleira sem er mjög æskilegt. Auðvitað er þetta alhæfing og það þarf að skoða þessi mál og verður gert út frá þessum gleraugum. En hv. þingmaður vísaði til náttúrustofa og samstarfs við aðrar opinberar stofnanir sem gegna mikilvægu hlutverki og stutta svarið er að auðvitað er mjög æskilegt að það verði. En ég held að við eigum að líta líka á stofnanauppbygginguna og þá starfsemi sem þar er með sérstaklega þessum augum, að taka mið af því að umfjöllunarefnin, ef þannig má að orði komast, eru að stærstum hluta, a.m.k. mjög stórum hluta, á landsbyggðinni.