152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:10]
Horfa

Georg Eiður Arnarson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er með fyrirspurn til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Við auglýsum okkur sem grænt land og í þessari fjármálaáætlun er tekið fram að öll raforka sem við framleiðum sé af endurnýjanlegum uppruna. Það er gott og vel. En orkan sem við notum er annað mál. Ég kem frá Vestmannaeyjum og þar eru loðnubræðslur keyrðar á olíu alla vertíðina og meira að segja sundlaugin okkar er keyrð á olíu. Ég tel að við þurfum að skoða betur möguleika á að virkja sjávarföll og sjávarstrauma enda eru í kringum eyjarnar sterkir straumar. Einnig tel ég að við þurfum að skoða möguleikana á því að nýta vindorku fyrir orkuþörf Vestmannaeyja. Auk þess vantar okkur varanlega lausn á sorphirðumálum. Við höfum verið ferja sorp upp á land í mörg ár vegna þess að það er engin sorpbrennsla lengur í Eyjum. Er hæstv. ráðherra sammála mér að leita þurfi lausna í umhverfis- og orkumálum Vestmannaeyja, t.d. með því að nýta sjávarföll, sjávarstrauma og vindorku? Hvaða lausnir sér hæstv. ráðherra í orkumálum og sorphirðumálum í Vestmannaeyjum sem og víða á landsbyggðinni?