152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:15]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Aðeins varðandi löggjöfina sem tekur gildi um næstu áramót. Ég hvet hv. þingmann til að líta það aðeins bjartsýnni augum vegna þess að þar erum við að setja okkur markmið, við erum á eftir. Á mörgum sviðum erum við framarlega og á undan öðrum en þegar kemur að endurnýtingu og við getum sagt bara sorphirðu þá megum við gera miklu, miklu betur. Þar eru sett metnaðarfull markmið. En þetta er mikið til umræðu núna og ég er að heimsækja fulltrúa sveitarfélaga og fyrirtækja til að ræða þessi mál og það á að vera tryggt að það sé líka sveigjanleiki í lögunum til þess að ná markmiðunum með mismunandi leiðum. Aðalatriðið er að við séum að flokka og það skili sér á rétta staði. Það er aðalatriðið. Síðan erum við Íslendingar þannig að 85% íbúa eru, ef ég man rétt, innan Hvítár, en síðan erum við með fámenna staði úti um allt land. Það er ekkert að því og í rauninni bara mjög jákvætt og við leitum bestu leiða til þess að ná þessum markmiðum og við þurfum bara að sjá til þess að laga- og reglugerðakerfið sé ekki að þvælast fyrir því. Aðalatriðið er þetta; að við séum að flokka og það sem við flokkum fari á réttan stað. En það eru margar leiðir í því og nú þegar eru sveitarfélög að gera það með misjöfnum hætti, sum með mjög góðum árangri. En í heildina litið þá verðum við að gera miklu betur. Það er markmiðið með lögunum. Ef við þurfum eitthvað að snurfusa hluti þar til að gera landsmönnum auðveldara að ná þessum markmiðum þá eigum við að líta það jákvæðum augum.