152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:20]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg. Ég held að það sé ekki hægt að kvarta undan því að það vanti markmiðin. Ég held að það sé ekki vandamálið. Aðalatriðið er að verkefnið er stórt og ég hef ekki heyrt neinn mann sem hefur þekkingu á þessu halda öðru fram en að við séum með metnaðarfull markmið. Spurningin er um það hvernig við ætlum að ná þeim. Ef hv. þingmaður er að vísa til þess almennt að í þeim áætlunum sem við erum með í hinum ýmsum málum endurspeglist loftslagsmarkmiðin ekki nægilega skýrt þá held ég að það geti verið eitthvað til í því. En ég held að það muni breytast og ég hef fulla trú á að það muni breytast. Það er verkefnið. Við þurfum að vera með þau gleraugu, loftslagsmarkmiðsgleraugun, á öllum þáttum. Það er stóra verkefnið. Ég skal alveg viðurkenna það að mér finnst þetta stundum fara svolítið í umræður um að við erum sífellt — eða kannski ekki sífellt, en umræðan er svona meira um einhverjar tölur og prósentur. En við vitum alveg hver markmiðin eru. Þau hafa ekki farið fram hjá neinum og eru opinber og koma fram í stjórnarsáttmálanum. En við verðum að koma okkur á þann stað að fara í tölusett markmið um það hvernig við ætlum að ná þessu í einstaka geirum. Það er stóra markmiðið. Það er markmið allra, ekki bara hjá þeim sem eru hérna inni í þessum sal vegna þess að það liggur alveg fyrir að jafnvel þótt við værum 100% sammála um alla hluti hér þá gerist lítið í málaflokknum ef við erum ekki með þá aðila sem þurfa að framkvæma þá með okkur.