152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:34]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Ég þakka aftur hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar og hans innlegg. Ég kom ekki að því áðan en það er verið að klára þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi, Kirkjubæjarklaustri og í Mývatnssveit. Þetta eru stórar og dýrar framkvæmdir en ég trúi því að þær muni skila sér. Þetta er tæpur milljarður á þessu ári og 1,2 milljarðar 2023. Hv. þingmaður þekkir þetta mál mjög vel. Svo sannarlega var það ekki ég sem setti þetta á laggirnar, það voru þeir sem voru á undan mér á vettvangi og ég tel að þetta sé skynsamlegt. Hv. þingmaður vísaði hér til hlutar sem mér finnst vera algerlega þess virði að skoða mjög gaumgæfilega. Ég skal alveg viðurkenna að ég er mjög mikið að passa mig á að segja ekki hvernig hlutirnir eigi að vera af því þú getur ekki bæði tekið samtalið og hlustað og svo mætt og sagt: Heyrðu, þetta á að vera svona. Eini gallinn er sá að það eru bara 24 stundir í sólarhringnum. En ég reyni að fara það sem ég mögulega get til þess að hlusta á þá aðila sem búa við þjóðgarðinn, búa við friðlýstu svæðin. Það eru mismunandi sjónarmið, það eru mismunandi aðstæður en eitt markmiðið er að líta alveg sérstaklega til þess. Ég held að stóra verkefnið sé núna einhvern veginn að vinna á tortryggninni þannig að fólk geti treyst því að þær breytingar sem eru gerðar og það fyrirkomulag sem verði muni ekki taka einhverjum breytingum, að það sem var lagt upp með og kynnt breytist allt í einu í einni svipan.

Svo er ýmislegt sem ég get ekki lagt upp núna því að verkefnið er auðvitað mjög spennandi og framtíðarsýnin er mjög spennandi. En hún gengur út á það að fólk bæði sé sátt við og treysti því og trúi því að það verði þannig um framtíð.