152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð. Framtíðarnefnd Alþingis var boðið að ganga til fundar við framtíðarnefnd allrar framtíðarnefnda í heiminum, hina finnsku framtíðarnefnd þingsins sem starfað hefur áratugum saman að því að teikna upp framtíðina með atfylgi bestu manna og kvenna og reyna síðan að hafa áhrif til betrunar á þeirri mynd sem blasa virðist við í hverju málinu. Við vorum svo heppin að fá að sitja með þessu góða fólki í heila tvo daga, 17 manna framtíðarnefnd finnska þingsins varði gríðarlegum tíma, orku og mannskap í að ræða við okkur, gefa okkur öll þau gögn og upplýsingar sem þau hafa safnað saman og búa yfir. Þetta er nefnd sem er vel vörðuð góðu starfsfólki og hefur sömuleiðis sér til ráðgjafar þankatank sem komið var á fót, gjöf þingsins til finnsku þjóðarinnar á afmælisári þingsins, fyrir þremur áratugum. SITRA heitir sá þankatankur og hefur til ráðstöfunar rentuna eða arðinn af þeirri gjöf, því fjármagni sem þingið fékk til ráðstöfunar og banki í Finnlandi veitti sömuleiðis fé til. Vextirnir af þessu eru hvorki meira né minna en 5 milljarðar á ári. 180 starfsmenn og þau geta kallað inn bestu og mest leiftrandi hugsuði hvers tíma. Þetta voru heillandi dagar og innblásandi, held ég megi segja fyrir hönd okkar sem vorum þarna. Ég á mér þá heitu ósk og frómu að við komum nú uppsöfnuðum áralöngum vanda í starfi Alþingis (Forseti hringir.) — hér er engin merking á tíma.

(Forseti (BÁ): Tíminn er liðinn.)

Já, ég ætla bara að fá að ljúka setningunni alla vega. Að við náum þeim takti í okkar störf hér að málþóf verði úr sögunni og við getum einbeitt okkur að hinum brýnustu málum sem okkur er ætlað að leysa, brjóta til mergjar og við gefum okkur andrými til þess að hugsa inn í framtíðina því að stærstu vandamálin okkar í dag eru sennilega þau sem komu til af því að það var ekki hugsað nógu langt fram á veginn. Þar á ég m.a. við staðsetningu flugvallarins, staðsetningu Landspítalans, (Forseti hringir.) sölu Símans, sölu bankanna og veitingu heimilda (Forseti hringir.) í sameiginlegum auðlindum allra Íslendinga. Hugsum til framtíðar og gefum okkur næði til þess. Komum störfum í lag.