152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Aðalsteinn Haukur Sverrisson (F):

Virðulegi forseti. Á undanförnum þremur árum hefur ný íþróttahreyfing rutt sér til rúms hér á landi, rafíþróttir. Sú hreyfing hefur líkt og aðrar íþróttahreyfingar haft það að markmiði að stuðla að betri heilsu og andlegri líðan barna. Rafíþróttir hafa á síðustu árum vaxið gríðarlega um víða veröld og þar með talið hér á landi. Rafíþróttasamtök Íslands voru stofnuð með það markmiði að byggja upp skipulagt starf rafíþrótta á Íslandi. Ólíkt annars staðar í heiminum, þar sem áhugi og uppbygging á rafíþróttum hefur verið drifin af framleiðslufyrirtækjum leikjanna og þá með keppni atvinnumanna í forgrunni, hefur RÍSÍ byggt upp starfið hér með grasrótarstarfsemi sem kennir börnunum að umgangast tölvuleikjaiðkun með skynsamlegum hætti. Aðferðafræði RÍSÍ byggist á þremur kjörorðum; líkamlegri hreyfingu, leikjafræði og þjálfun í tölvuleikjum með áherslu á andlegan undirbúning. Með þessum áherslum hafa rafíþróttafélög hér á landi náð að laða til sín yfir 2.000 iðkendur á grunnskólaárinu. Þar eru Þór, Akureyri og Breiðablik fremst með 400 hvort um sig. Það jákvæðasta í þessum tölum er að flestir iðkendanna eru börn sem hafa lítinn áhuga á þátttöku í hefðbundnu íþróttastarfi og þar með er verið að virkja fjölda barna sem voru ekki í neinu skipulögðu íþróttastarfi fyrir. Sá sem hér stendur hefur persónulega reynslu af jákvæðum áhrifum rafíþrótta en þau hafa hjálpað syni mínum mikið með félagsfærni og einnig vakið áhuga hans á líkamlegri hreyfingu. Frá stofnun RÍSÍ hefur Framsókn stutt dyggilega við uppgang rafíþrótta og nýlega var samþykkt ályktun á flokksþingi um stofnun afrekssjóðs rafíþróttaiðkenda. Ég vil því hvetja (Forseti hringir.) alla hér á Alþingi til að kynna sér starfsemi rafíþrótta og tryggja breiðan stuðning til framtíðar.