152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var rætt hér á Alþingi um aðbúnað fangavarða, ýmist á Litla-Hrauni eða Kvíabryggju. Ég fór þá aðeins að hugsa til baka. Ég kom nokkrum sinnum á Litla-Hraun 1986, ég var að heimsækja frænda minn sem sat þar inni í nokkra mánuði. Þannig er að ég hitti reglulega unga menn sem hafa nýlokið afplánun og mér verður oft hugsað til þess að þessir menn sem hafa setið inni í fangelsi, þeir áttu ekkert erindi þangað. Þetta eru bara strákar sem lentu á villigötum, yfirleitt alltaf tengt áfengi eða fíkniefnum. Það er synd að setja þessa menn, óharðnaða menn, þó að þeir hafi brotið af sér, í svona hart fangelsi. Víða um landið eru yfirgefnir heimavistarskólar eða jafnvel sumarhótel sem sum hver eru ekki starfrækt nema kannski fjóra til fimm mánuði á ári. Það væri alveg nóg að hafa þannig aðstöðu fyrir þessa stráka sem væru að fara í fyrsta skipti inn. Ef þeir eru eitthvað óþekkir og stinga af og fara í bæinn er hægt að setja þá á Litla-Hraun eða Hólmsheiði eða eitthvað svoleiðis. En meðan þeir taka út sína fyrstu refsingu eiga þeir miklu frekar að fá einhvers konar meðferð sem tengist þeirra raunverulega vandamáli sem er fíkn. Það er mjög illa farið með þessa ungu menn, óharðnaða unglinga sem þeir eru raunverulega þó að þeir séu kannski vel yfir tvítugt, að setja þá í umhverfi þar sem eru harðsvíraðir glæpamenn. Ég legg því til að komið verði á millistigi í afplánun þannig að umhverfið sé mannlegt og notalegt og fangarnir hafi tækifæri til að hugsa ráð sitt og taka breytingum.