152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 14. febrúar síðastliðinn biðu 738 börn eftir að komast að hjá Þroska- og hegðunarstöð þar sem meðalbiðtími er 12–14 mánuðir. 326 börn biðu eftir að hefja greiningarferli hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins þar sem meðalbiðtími er 12–19 mánuðir. Eftir að foreldrar verða varir við að barnið sé í vanda getur tekið um þrjú ár að fá fyrstu meðferð — þrjú ár, herra forseti. Hundruð barna bíða eftir greiningu á ADHD. Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra segir að til standi að auka fjármagn til greininga. Við sjáum engin merki þess í fjárlögum eða í fjármálaáætlun til næstu ára. Eftir að farsældarfrumvarpið um velferð barna var samþykkt í fyrra hefur ástandið versnað. Það er sem sagt ekki nóg að segjast vilja taka á vanda barna og skipta um nafn á stofnunum. Það þarf að grípa hratt til aðgerða. Forsenda fyrir snemmtækri íhlutun, sem hæstv. ráðherra talar svo fjálglega um sem æskilega, er einmitt að börn þurfi ekki að bíða árum saman eftir greiningu og úrræðum. Ofan á allt er staðan sú að margir starfsmenn finna fyrir slæmum einkennum og hafa nokkrir hreinlega þurft að hætta vinnu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð með einkenni vegna myglu í húsnæði stöðvarinnar. Stór hluti starfsmanna þarf að vinna alfarið að heiman þar sem þeir verða mjög veikir þegar þeir koma í húsið. Ekki eru þó allir starfsmenn sem hafa tök á að vinna að heiman, bæði vegna aðstæðna heima fyrir og eðli þeirra starfa sem þeir sinna. Þessi vandi varðar húsakost en ekki manneklu vegna ráðgjafar og greiningar. Getuleysi og úrræðaleysi ráðamanna verður til þess að biðlistarnir lengjast með alvarlegum afleiðingum fyrir börnin sem bíða.