152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þétting byggðar er loftslagsmál, kjaramál og lífsgæðamál, snýst um góða og heilbrigða borgarþróun, um hagkvæmni í rekstri samfélags og gott mannlíf. Við erum nefnilega félagsverur og flestum finnst okkur gott að vera innan um annað fólk. Þetta skiptir allt saman máli og við hér á Alþingi eigum að gera það sem í okkar valdi stendur til að styðja við þéttingu byggðar, styðja við félagslega blöndun. Og já, framkvæmdir og breytingar í okkar nærumhverfi kalla á samtal, kalla á þolinmæði. Stundum eru þær óþægilegar en þær margborga sig. Verktakar renna auðvitað hýru auga til ódýrs lands handan þéttingarsvæða. Það hentar þeim ágætlega að nýtt land sé brotið undir byggð. En hver er það þá sem situr uppi með kostnaðinn? Jú, það er sveitarfélagið sem þarf að leggja nýja og langa vegi, byggja upp nýja innviði frá grunni og viðhalda þeim. Þá eru það veitufyrirtækin sem þurfa að leggja lengri og dýrari lagnir og síðast en ekki síst lendir kostnaðurinn á fjölskyldunum sem þurfa að greiða miklu hærri samgöngukostnað, eða af hverju ætli bílaeign í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sé að meðaltali tvöfalt meiri en miðsvæðis? Það segir sig sjálft. Dreifing byggðar er dýr, hún eykur umferð. Hún eykur tafatíma í umferðinni, veikir almenningssamgöngur, gengur á græn svæði og hún magnar upp loftslagsvandann. Stjórnmálafólk og stjórnmálaflokkar sem hamast gegn þéttingu byggðar geta ekki ætlast til þess að vera teknir alvarlega í umræðu um loftslagsmál. Sérhagsmunaöflin munu auðvitað halda áfram að berjast með kjafti og klóm fyrir útþenslustefnu og dreifingu, að verktökum séu afhentar lóðir út og suður og helst endurgjaldslaust, en við í stjórnmálum, (Forseti hringir.) bæði á sveitarstjórnarstiginu og hér á Alþingi, eigum að hafa hugrekki til að standa í lappirnar með almenningi (Forseti hringir.) með góðri og grænni borgarþróun og gegn sérhagsmunum.