152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á fjárlaganefndarfundi í morgun lagði ég fram ósk um minnisblað frá Bankasýslunni í tengslum við söluna á Íslandsbanka, sem ég geri ráð fyrir að verði afgreitt úr nefnd í vikunni. Bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa lýst því yfir að varpa þurfi betra ljósi á söluna og sagði hæstv. forsætisráðherra að lög ættu ekki að hamla birtingu listans, sem gæti nú reynt á. Spilling getur verið til staðar þó að það hafi ekki verið ætlun stjórnvalda. Ef leiðbeiningar við sölu á ríkiseign eru óljósar og skilningur þriðja aðila er sá að val á kaupendum sé líkt því sem gengur og gerist þegar seld eru verðbréf í einkaeigu þá getur það leitt til ráðstafana á eignum almennings á afslætti án tilhlýðandi rökstuðnings. Ef söluaðilar eru valdir til að sinna verkefnum fyrir ríkið upp á 700 millj. kr. án þess að fram fari útboð eða rökstuðningur á því hverjir voru valdir þá vakna eðlilega upp spurningar. Af hverju? Þegar verið er að stunda viðskipti með eignir og fjármuni ríkisins þá gerum við kröfu um gagnsæi og jafnræði sem eru miklu stífari en gengur og gerist í viðskiptum einkaaðila. Ástæðan er fyrst og fremst óttinn við spillingu. Þess vegna er svo mikilvægt að fram fari alvöruskoðun á þessu ferli og að þeim spurningum sem ekki hefur verið svarað verði svarað, að öxlum verði ekki bara yppt og haldið áfram að selja tugmilljarða eignir bara einhvern veginn, á þann veg að stóra myndin sé ágæt. Við í Samfylkingunni munum fylgja þessu máli fast eftir og ýta eftir svörum.