152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Nokkrum sinnum á ári og oftar á öðrum vettvangi er nýjum Íslendingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Framkvæmdin á Íslandi er þannig að þegar þér hefur verið veittur ríkisborgararéttur samkvæmt umsókn, ýmist til Útlendingastofnunar eða til Alþingis, þá fær fólk bréf sem í segir: Umsóknin hefur verið samþykkt. Eigðu góðan dag. Þetta er smá stytting en í grófum dráttum er bréfið svohljóðandi. Árið 2006 hófu norsk stjórnvöld að bjóða upp á athöfn fyrir einstaklinga sem veittur hafði verið norskur ríkisborgararéttur. Athöfnin er hátíðleg. Hún markar upphaf nýs ríkisfangs einstaklinganna og er ætlað að styrkja böndin á milli nýrra borgara og ríkisins. Hinir nýju borgarar sem þiggja boð um að taka þátt í athöfninni fara með tryggðarheit og fá bók að gjöf. Í bókinni er farið yfir helstu kafla í norskri sögu og meginþætti í daglegu lífi Norðmanna. Hún inniheldur einnig kynningu á norsku lýðræði, réttarríkinu og mannréttindum, þeim réttindum og þeim skyldum sem fylgja ríkisborgararéttinum.

Nú líður að því, þótt biðin hafi verið löng, að við hér á þingi förum að samþykkja lagafrumvarp um veitingu ríkisborgararéttar í fyrsta skipti á þessu kjörtímabili og er það mikið ánægjuefni og hlakka ég mikið til. Ég ætla að gera það að tillögu minni að við tökum upp svipað fyrirkomulag og Norðmenn hafa gert. Það að fá ríkisfang er gríðarlega stór viðburður í lífi hvers einstaklings, í raun sama hvernig á það er litið, og eðlilegt að fagna því með viðeigandi hætti, auk þess sem ég held að það væri til mikils sóma að bjóða fólk formlega velkomið og veita því inngöngu í samfélag okkar á þann hátt.