152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hildur Sverrisdóttir gerði nýlega sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka að umtalsefni hér undir sama lið í gær. Þar undirstrikaði hún hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að um söluna ríki fullt gagnsæi, ekki síst varðandi það hverjir það voru sem fengu að fjárfesta í bankanum í þessu ferli. Þessu er ég fullkomlega sammála. Hæstv. fjármálaráðherra hefur kallað eftir lista yfir kaupendur og um þær reglur sem gilda um upplýsingarnar. Fyrsti hluti sölu Íslandsbanka var vel heppnað hlutafjárútboð og neikvæðar raddir heyrðust þá almennt bara frá þeim sem voru og eru yfir höfuð á móti sölu ríkisbanka. Það hefur hins vegar legið fyrir frá upphafi að ríkið ætlaði sér ekki að eiga bankann um ókomna tíð. Sala ríkisins á hlutnum nú var sannarlega nauðsynlegt skref. Framkvæmdin var í höndum sjálfstæðrar stofnunar, Bankasýslunnar, sem telur að útboðið hafi verið afar vel heppnað. Það er mikilvægt að karp og hártoganir um upplýsingagjöf varpi ekki rýrð á söluna, skapi ekki óþarfa vantraust. Það er eðlileg krafa að við fáum upplýsingar um það hverjir keyptu og hvernig því var háttað þegar um er að ræða sölu ríkiseigna. Við þingmenn gegnum eftirlitshlutverki með stjórnsýslunni og við hljótum að leita allra leiða til þess að fá þessar upplýsingar fram. Við getum tæplega unað við það að okkur verði ekki veittar þessar upplýsingar sem farið hefur verið fram á, upplýsingar sem varða sölu á ríkiseign.

Síðan bíður það betri tíma að ræða ofþéttingarstefnu Reykjavíkurborgar við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson, gott ef ég býð honum ekki bara í kaffi til mín í Grafarvoginn og við ræðum þetta betur þar.