152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í umræðum í gær um fjármálaáætlun 2023–2027 við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra kom fram að það á ekkert að gera fyrir fátækt fólk og það á ekki heldur að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ekkert barn búi við fátækt. Auðvitað ekki, því að hver króna sem sett er í útrýmingu fátæktar barna skilar sér tífalt til baka. Það er ekki ríkisstjórninni þóknanlegt núna því að hún er í því að selja eignir ríkisins með afslætti; bankinn er seldur með milljarða afslætti til útvalinna og því auðvitað fáránlegt að hugsa um að útrýma fátækt á sama tíma, hvað þá þegar það er hagkvæmt. Milljarða króna sem ekki er hægt að nota til að útrýma fátækt þarf ríkisstjórnin nauðsynlega að nota til að fjölga ráðherrum og setja í ný ráðuneyti og það jafnvel á Austurbakka, sem er dýrasti fasteignamarkaður landsins. Þetta er auðvitað nauðsynlegt fyrir forgangsverkefni þeirra og fatlað fólk verður að skilja það og fátækt fólk einnig, að vera bara áfram stillt í sínu horni kerfisins því að þeirra tími er ekki kominn. Það vantar auðvitað ekki milljarða króna hjá ríkisstjórninni til að koma málefnum þeirra verst settu í lag heldur er hún upptekin við að forgangsraða þeim í nauðsynleg eigin gæluverkefni. Nauðungarvistun fatlaðs fólks á sjúkrahúsi mun halda áfram og fátækir verða að herða sultarólina næstu fjögur árin. Þá mun ríkisstjórnin áfram draga lappirnar í að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Mannréttindi fatlaðs fólks munu áfram vera málefni Hæstaréttar Íslands og núna er akkúrat enn eitt málið hjá Hæstarétti Íslands um það hvort sveitarfélög hafi heimild til að setja kvóta á mannréttindi fatlaðs fólks. Þarna er spurning um heimild til að setja kvóta á NPA-samninga sem við á Alþingi samþykktum fyrir fjórum árum, spurningin um hvort það sé ekki mannréttindabrot að vista fatlað fólk gegn vilja sínum á stofnun og/eða loka það inni með ófullnægjandi þjónustu á heimili sínu eins og í fangelsi.