152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Af hverju setjast Hafnfirðingar alltaf á fremsta bekk í bíó? Hafnfirðingabrandarar hafa verið til svo lengi sem ég man eftir mér og líklega eru þeir það næsta sem Íslendingar hafa komist hversdagslegum rasisma. Þetta eru brandarar sem ganga út á það að smætta gjörólíka einstaklinga niður í einn og sama samnefnara. Það er eitt að segja ófyndinn brandara á kostnað hópa sem eru ekki jaðarsettir en annað að segja brandara á kostnað viðkvæmra hópa sem glíma við alvarlega og hamlandi fordóma í lífi og starfi. Það er ekki bara sárt og óviðeigandi, það er ódýrt, asnalegt og skaðlegt. Hvað, ertu ekki með húmor? eru stöðluð viðbrögð við misheppnuðum bröndurum, eins og dreifing skaðlegra fordóma og staðalímynda sé réttlætanleg svo framarlega sem það er sagt í gamansömum tón. Ég vil meina að almennilegir húmoristar geri meiri kröfur en svo að hægt sé að koma þeim til að hlæja með vanþróuðu gríni sem grundvallast á kyni og kynþætti. Þess utan er það bara asnalegt og óviðeigandi að uppnefna fólk eða smætta niður í útlit eða persónueinkenni; þessi þarna feiti með krullurnar, þessi þarna granni með skallann, ljóskan í stutta pilsinu, homminn með gleraugun, þessi svarta. Uppnefni eru birtingarmynd þeirrar einföldunar sem býr til fordóma og viðheldur þeim, gefur okkur leyfi til að „aðra“ fólk sem er ólíkt okkur sjálfum, aðgreina þau frá okkur, skapa gjá á milli hópa sem eiga meira sameiginlegt en ekki.

Hæstv. ráðherra. Þessi svarta. Við öll hérna inni getum erfiðlega sett okkur í spor þeirra sem eru uppnefnd vegna kynþáttar og uppruna en við þurfum ekki að skilja upplifanir þeirra til þess að taka mark á þeim.